Lífið

Bruggað vegna bjórþorsta hermanna á Íslandi

Benedikt Bóas skrifar
Þessi hefur væntanlega skellt sér í borg óttans eftir æfingu og skolað niður nokkrum góðum með búbbl­um.
Þessi hefur væntanlega skellt sér í borg óttans eftir æfingu og skolað niður nokkrum góðum með búbbl­um. Fréttablaðið/Eyþór
Finnska brugghúsið Tornion Pan­imo brást við fréttum um að hermenn hefðu tæmt öldurhús Reykjavíkur af bjór með því að brugga Peacemaker. Bjórinn mun koma á markað innan tíðar en í takmörkuðu upplagi.

„Við heyrðum af vandræðum hermannanna í Reykjavík og vildum alls ekki að þeir myndu verða bjórþyrstir svo við gerðum þennan friðarbjór,“ segir Kaj Kostiander, stjórnarmaður í Panimo brugghúsinu.

Erlendir miðlar voru duglegir að flytja fréttir af bjórþorsta hermannanna sem voru á leiðinni til einnar stærstu æfingar í sögu Nató þegar 50 þúsund hermenn frá 31 þjóð og um 250 flugvélar og 10 þúsund farartæki voru saman komin.

Um sjö þúsund hermenn stoppuðu hér á landi í fjóra daga og lögðu leið sína í miðbæinn þar sem bjórinn flæddi úr dælunum. Svo mjög að hann nánast kláraðist. Þurfti Ölgerð Egils Skallagrímssonar að senda neyðarbirgðir í miðbæinn.

Finnarnir hafa nú brugðist við en finnska brugghúsið bruggaði einmitt í í júlí bjórinn Let’s Settle This Like Adults sem var til heiðurs fundi Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Vladímírs Pútín Rússlandsforseta.

Á bjórnum stendur Si vis pacem, bibe cervisiam sem myndi þýða: Ef þú vilt frið, drekktu bjór.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×