Erlent

Deila um ágæti samkomulags

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
innan Íhaldsflokksins voru ýmsir ósáttir, einkum harðasti Brexit-vængur flokksins
innan Íhaldsflokksins voru ýmsir ósáttir, einkum harðasti Brexit-vængur flokksins Vísir/EPA
Bretland Evrópusambandið og Bretland hafa samþykkt drög að Brexit-samningi. Viðræðum er ekki lokið enda á enn eftir að loka smærri málum, sagði á vef BBC. Breskir ráðherrar voru kallaðir á fund Theresu May forsætisráðherra í gær. Frekari fundir ráðherra fara fram í dag.

Samkvæmt írska ríkisútvarpinu munu Norður-Írar þurfa að halda í stærri hluta af regluverki innri markaðar og tollabandalags ESB en önnur svæði Bretlands til þess að koma í veg fyrir sýnilega landamæragæslu á milli Norður-Írlands og Írlands.

Viðbrögðin við tíðindunum voru misjöfn. Varaformaður norðurírska DUP-flokksins, sem ver ríkisstjórn Íhaldsflokksins vantrausti, sagði að það yrði erfitt að koma þessu samkomulagi í gegnum þingið. Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, sagði ólíklegt að samningurinn væri góður fyrir Breta.

Og innan Íhaldsflokksins voru ýmsir ósáttir, einkum harðasti Brexit-vængur flokksins sem hefur lengi deilt við May. Boris Johnson sagði að Bretar yrðu undirlægjur ESB. Julian Smith, sem sér um að smala saman atkvæðum Íhaldsflokksins á þingi, sagðist þó viss um að það væri hægt að ná samkomulaginu í gegnum þingið.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×