Bíó og sjónvarp

Kona fer í stríð verðlaunuð af Evrópuþinginu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Benedikt með verðlaunin í Strassborg í dag.
Benedikt með verðlaunin í Strassborg í dag. EPA/PATRICK SEEGER
Benedikt Erlingsson leikstjóri hlaut í dag LUX kvikmyndaverðlaun Evrópuþingsins við hátíðlega athöfn í Evrópuþinginu í Strassborg fyrir kvikmynd sína, Kona fer í stríð.

Verðlaun þessi eru veitt árlega þeirri mynd sem þykir best beina kastljósinu að helstu félagslegu og pólitísku álitaefnum okkar tíma.

Halldóra Geirharðsdóttir sést hér í hlutverki kórstjórans Höllu. Í síðustu viku var hún tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir leik sinn.
„Það er mikill heiður að vera hér í musteri löggjafarvaldsins. Mér líður eins og stjórnmálamanni en ég held að stjórnmálamenn séu einnig sagnamenn. Þið þingmenn eruð raunar afar hugrakkir því þið eruð að takast á við hinar raunverulegu áskoranir baráttunnar gegn loftslagsbreytingum,“ sagði Benedikt Erlingsson við þetta tækifæri og bætti við: 

„Loftslagsbreytingar verða miðpunktur allra stjórnmála í framtíðinni“.

Kona fer í stríð er kvikmynd sem hvetur til borgaralegs mótþróa, til að berast fyrir og bjarga náttúrunni frá græðgi og ofurvaldi stórra iðnfyrirtækja. Hún er samstarfsverkefni íslenskra, franskra og úkraínskra aðila.

Klippa: Ræða Benedikts Erlingssonar á Evrópuþinginu
Myndin keppti til úrslita við kvikmyndirnar Styx og Hin hliðin á öllu saman. Allar LUX úrslitamyndirnar þrjár voru sýndar á sérstakri LUX dagskrá á RIFF kvikmyndahátíðinni á Íslandi í ár.

„Það voru þingmenn Evrópuþingsins, kjörnir fulltrúar íbúa Evrópusambandsins, sem völdu myndina, enda hvetur hún til umræðu um áskoranir Evrópu og framtíðartækifæri, um baráttuna við umhverfisspjöll, með femíniskum undirtónum,“ eins og segir í tilkynningu frá Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi.

Hér fyrir neðan má sjá verðlaunaafhendinguna í heild sinni.

Klippa: Lux-verðlaunin afhent í Evrópuþinginu
Áður hafa íslensku kvikmyndirnar Hrútar og Hjartasteinn komið til greina sem verðlaunamyndir hjá Evrópuþinginu.

Klippa: Kona fer í stríð - sýnishorn

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×