Erlent

Segir Brexit-drög hrikaleg fyrir Skotland

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands. EPA/WILL OLIVER
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, segir að verði þau drög að Brexit-samningi sem nú eru til viðræðna samþykkt, yrði það hrikalegt fyrir Skotland. Drögin fela í sér að Norður-Írland fái að vera áfram innan innri markaða Evrópusambandsins og að slíkt myndi vera ósanngjarnt gagnvart Skotlandi. Ríkisstjórn Sturgeon vill einnig vera innan innri markaða ESB.

„Þetta yrði hrikalegt varðandi fjárfestingu og störf í Skotlandi,“ hefur AFP fréttaveitan eftir Sturgeon.



Þetta sagði Sturgeon í viðtali við fjölmiðla í Skotlandi og hún sagði enn fremur að þessi niðurstaða yrði sú versta af öllum.

Þá sagði forsætisráðherrann að breska þingið gæti enn kosið gegn samkomulaginu og á væri hægt að leita betri lausna, eins og mögulegri áframhaldandi aðkomu alls Bretlands að innri markaði og tollasamastarfi ESB.

AFP hefur einnig eftir þingmanninum Ross Thompson, sem er í íhaldsflokki Theresu May, að drögin séu óásættanleg. Hann segist hafa barist af mikilli hörku fyrir því að Skotland fengi ekki sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2014. Hins vegar væri þetta samkomulag í raun að slíta Bretlandi upp með því að veita Norður-Írlandi undanþágu og áframhaldandi aðgang að innri mörkuðum ESB.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit árið 2016 kusu 63 prósent Skota að vera áfram í ESB á meðan niðurstaðan yfir allt Bretland var sú að 52 prósent vildu yfirgefa sambandið. Tveimur árum höfðu 55 prósent Skota kosið að vera áfram í Bretlandi.

Sturgeon segir að Brexit hafi breytt aðstæðum Skota verulega en enn sem komið er hefur hún ekki boðað til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×