Viðskipti innlent

Lágmarkstilboð 80 prósent af eigin fé

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lágmarkstilboð í tólf prósenta hlut sem Landsbankinn býður til sölu í Eyri Invest, kjölfestuhluthafa Marels, er 80 prósent af eigin fé fyrirtækisins. Miðað er við eigið fé Eyris hinn 30. júní að teknu tilliti til breytinga sem einkum varða verðbreytingar á Marel, breytinga á gengi evru gagnvart krónu, fjármagnsliðum og áætluðum rekstrar­kostnaði. Þetta kemur fram í útboðsskilmálum Landsbankans.

Eignir Eyris námu 663 milljónum evra í sumar og eiginfjárhlutfallið var 69,5 prósent. Eigið fé fjár­festingar­félagsins var því 461 milljón evra í sumar, eða um 65 milljarðar króna. Ef tólf prósenta hlutur í Eyri verður seldur á bókfærðu eigið fé nemur virði hans tæplega átta milljörðum króna. Standi fjárfestum til boða 20 prósenta afsláttur lækkar verðið í rúmlega sex milljarða.

Fram hefur komið í Fréttablaðinu að bankinn bjóði til sölu, í heild eða hluta, allt að 12,1 prósents hlut í Eyri. Tilboðsfrestur rennur út á hádegi miðvikudaginn 28. nóvem­ber. Fjármálaeftirlitið hefur frá því um miðjan september sektað Landsbankann um hálfa milljón króna á dag til þess að knýja á um að bankinn selji 22 prósenta hlut sinn í Eyri Invest. Í svari bankans við fyrirspurn Markaðarins kom fram að bankinn hefði lengi reynt að selja bréfin í Eyri Invest og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins gerði það enn brýnna en áður.

Eyrir á einnig 43,4 prósenta hlut í Eyri Sprotum, sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum, og þriðjungshlut í Efni Media, sem selur vörur og þjónustu í gegnum netið og samfélagsmiðla.

Stærstu hlut­haf­ar Eyr­is In­vest eru Lands­bank­inn með 22 prósent, Þórður Magnús­son stjórn­ar­formaður með 19 prósent og Árni Odd­ur Þórðar­son, son­ur hans og for­stjóri Mar­els, með 16 prósenta hlut.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×