Innlent

Ábyrgar tillögur sem komi þeim verst stöddu best

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Samfylkingarfólk kynnir breytingatillögur sínar.
Samfylkingarfólk kynnir breytingatillögur sínar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
„Í upphafi voru forsendur fjárlaga allt of veikar. Það kemur nú á daginn og þegar gengið fer að falla og forsendurnar bresta þá er brugðist við og stigið skref aftur á bak. Það er skorið niður hjá þeim hópum sem ekki nutu góðærisins og hefði þurft að verja,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur meirihlutans.

Hann segir hugmyndir stjórnarflokkanna óásættanlegar og stríða gegn siðferðiskennd sinni. Samfylkingin hefur lagt fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. „Allar okkar tillögur eru fjármagnaðar, ábyrgar og koma þeim sem verst standa og millitekjufólki best,“ segir Oddný Harðardóttir þingflokksformaður.

Tillögurnar gera ráð fyrir 24 milljarða auknum útgjöldum og að tekjurnar aukist um 26 milljarða. „Aðalatriðið er að við viljum að tekjuafgangur ríkissjóðs sé rúmur þannig að hægt sé að ganga á afganginn þegar að kreppir en að öryrkjar og þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda þurfi ekki að taka á sig skellinn,“ segir Oddný.

Meðal tillagnanna er aukið fé til aldraðra og öryrkja, barna- og vaxtabóta auk húsnæðisstuðnings. Þá er lagt til að bætt verði í fjárveitingar til samgöngu- og heilbrigðismála auk ýmissa annarra verkefna.

Samfylkingin vill fjármagna þessar tillögur með því að falla frá lækkun veiðigjalds, hækka fjármagnstekjuskatt og kolefnisgjald, setja aftur á auðlegðarskatt sem verði tekju- og eignatengdur, setja á sykurskatt og bæta eftirlit með skattundanskotum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×