Umfjöllun og viðtöl: Selfoss 27-27 HK | Selfosskonur bíða enn eftir fyrsta heimasigri vetrarins

Arnar Helgi Magnússon skrifar
Perla Ruth Albertsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir.
Perla Ruth Albertsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir. Vísir/Daníel
Það var sannkallaður tveggja stiga leikur í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld þegar heimastúlkur fengu HK í heimsókn. Fyrir leikinn sat Selfoss í neðsta sæti deildarinnar, með þremur færri stig en HK sem sat í því sjötta. HK vann fyrri leik liðanna í deildinni og því áttu Selfyssingar harm að hefna. 

Leikurinn var jafn í upphafi og skildu eitt til tvö mörk liðin að lengi vel. Selfyssingar höfðu yfirhöndina fyrsta korterið en þá snérist leikurinn við og HK-inga tóku við. Gestirnir áttu möguleika á því að ná þriggja marka forskoti rétt fyrir hálfleik en Elva Arinbjarnar tapaði þá boltanum. 

Selfoss fékk aukakast þegar þrjátíu mínútur voru liðnar af leiknum og þurfti Hanna að taka skot með varnarvegg HK fyrir framan sig. Skotið var fínt en Sunna í marki HK varði. Staðan því 15-17 í hálfleik, HK í vil. 

HK hélt þessari tveggja marka forystu eitthvað inn í síðari hálfleikinn en juku hana síðan jafnt og þétt. Mest var fimm marka munur á liðunum. Þá tók Hrafnhildur Hanna málin í sínar hendur fyrir Selfyssinga og skoraði sex mörk á stuttum tíma. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Hulda Dís, systir Hrafnhildar jafnaði fyrir Selfyssinga þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum. 

HK tók miðju og Díana reyndi skotið, enda einungis tvær sekúndur eftir en varnarmaður Selfoss náði að verja skotið. Lokatölur 29-29. 

Afhverju varð jafntefli?

Það stefndi allt í sigur HK-inga þegar Hrafnhildur, eins og fyrr segir tók málin í sínar hendur. Hún skaut HK í kaf síðustu mínúturnar og HK-ingar bognuðu. Eins og Vilhelm Gauti, þjálfari HK sagði í viðtali eftir leik þá leit hann á þetta sem tapað stig. 

Þegar korter var eftir af leiknum leit ekkert út fyrir endurkomu Selfyssinga. Vel gert hjá þeim, stigu upp og sýndu stuðningsmönnum sínum að þær eru ekki dauðar úr öllum æðum þrátt fyrir að sitja í neðsta sæti deildarinnar. 

Hverjir stóðu uppúr?

Í liði HK var Díana Kristín atvæðamest með fimm mörk úr tíu skotum. Hún steig upp á mikilvægum tímapunktum í leiknum. Elva Arinbjarnar og Valgerður Ýr voru flottar í liði HK sem og Helena Ósk sem að var með fjögur mörk úr fimm skotum. 

Hrafnhildur Hanna var langbest í liði Selfoss með ellefu mörk úr tólf tilraunum. Algjörlega mögnuð. Perla Ruth, mágkona Hrafnhildar var einnig drjúg inni á línunni en hún skoraði sex mörk úr sjö skot tilraunum. 

Hvað gekk illa?

Afleit markvarsla hjá báðum liðum í kvöld. Báðir markverðir, Katrín og Sunna tóku kafla í leiknum þar sem að þær vörðu nokkur skot í röð en síðan ekki söguna meir. Katrín þó með aðeins betri markvörslu eða 25% á meðan kollegi hennar hjá HK var með 15% vörslu. 

Selfyssingar voru með sextán tapaða bolta í kvöld sem verður að teljast ansi lélegt en Örn Þrastarson, þjálfari Selfyssinga var þó sáttur að hafa ekki slegið metið sem er 21 tapaður bolti. 

Hvað næst?

Olísdeild kvenna er komin í langt frí. Liðin mæta ekki aftur til leiks fyrr en um miðjan janúar. Þá mætir HK liði Stjörnunnar á meðan Selfyssingar fara til Akureyrar og spila við KA/Þór. 

Örn Þrastarson: Nýtt mót eftir áramótÖrn Þrastarson þjálfari Selfyssinga var nokkuð sáttur í leikslok en lið hans gerði 27-27 jafntefli við HK í Olísdeildinni í kvöld. Selfyssingar voru fjórum mörkum undir þegar tíu mínútur voru til leiksloka en lið hans náði að koma til baka: 

 

,,Við komum til baka þarna í lokin og gerðum spennu úr þessu og ef að allt hefði gengið upp þá hefðum við náð að klára þennan leik en ég tek jafnteflinu fagnandi hérna í dag”

 

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, systir Arnar reyndist drjúg fyrir Selfyssinga í lokin en hún skoraði ellefu mörk í leiknum.

 

,,Já hún hitti á það. Síðan tók Hulda (hin systir Arnar) þetta úrslitaskot en hún er frábær skotmaður. Hún hefur verið að sýna það á æfingum en það hefur kannski ekki alveg verið að detta hjá henni í leikjum en hún steig upp núna á réttum tíma og setti það.”

 

Hanna var sein í gang en hún skoraði þó úr öllum vítunum sínum í leiknum. Afhverju byrjaði Hanna ekki fyrr að skjóta fyrir utan?

 

,,Það er góð spurning. Láttu mig vita ef þú finnur svarið. Það væri gott að fá að vita það”

 

Selfoss tapaði sextán boltum í leiknum. 

 

,,Djöfull, metið okkar er 21 og við ætluðum að ná því. Neinei, þetta er alltof mikið af töpuðum boltum.”

 

,,Það kemur tuttugu mínútna kafli í síðari hálfleik sem að við missum þær svolítið frá okkur og ég þarf að skoða það betur. Á löngum kafla í leiknum erum við mjög góðar eða í svona fjörtíu mínútur. Við sýnum rosa karakter að koma til baka, við höfum ekki alltaf sýnt það. Ég sé mikil batamerki á liðinu”

 

Örn segir að liðið ætli að nýta fríið vel. 

 

,,Já þetta er kærkomið frí. Við munum nýta það vel. Við tökum núna nokkra daga í frí en síðan förum við að byggja okkur upp. Þetta er bara nýtt mót eftir áramót og við komum sterkar inn í það”

Vilhelm: Ráðum ekkert við Hönnu þegar hún finnur skotið sitt,,Þetta er eitt tapað stig,” sagði Vilhelm Gauti þjálfari HK eftir jafntefli við Selfoss í Olísdeildinni í kvöld. 

 

HK var með fjögurra marka forystu þegar tíu mínútur voru eftir en töpuðu því niður. 

 

,,Úr því sem komið var, við vorum fimm mörkum yfir þá kemur Hanna með sýningu og hún sækir þetta stig fyrir þær. Aftur á móti lentum við líka undir og hefðum getað tapað en náðum að koma til baka og komast yfir. Ég tek þessum punkti glaður.”

 

,,Við höldum Selfyssingum ennþá þremur stigum frá okkur og förum í fríið í sjötta sæti. Við vinnum bara vel úr okkar málum í desember og komum sterk eftir áramót.”

 

Vilhelm var sáttur við sóknarleik sinna leikmanna.

 

,,Ég var gríðalega ánægður með sóknarleikinn nánast allan tímann. Ég var ánægður með stelpurnar í dag og það var mikill kraftur í þeim, óhræddar. Allar sem að spiluðu í dag voru að skila góðu dagsverki."

 

,,Hvað varðar varnarleikinn þá var ég heldur ekkert ósáttur með hann. Það voru nokkur atriði sem að ég hefði viljað loka á, eins og til dæmis síðasta skot Selfyssinga. Ég hefði viljað sjá henni mætt, hún á ekki að ná þessu skoti.”

 

Eins og fyrr segir var Hrafnhildur Hanna stórkostleg í liði Selfyssinga. 

 

,,Já við vorum að reyna að klippa hana út. Ég heyrði í hátalarakerfinu að hún væri búin að skora tíu mörk, það hefur verið slatti úr vítum af því að mér fannst hún ekki vera að skjóta mikið. Hanna er klassa leikmaður og þegar hún finnur skotið sitt þá ræðuru ekkert við hana.”

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira