Umfjöllun og viðtöl: Valur - FH 28-28 | Rosaleg dramatík á Hlíðarenda

Svava Kristín Gretarsdóttir á Hlíðarenda skrifar
Agnar Smári Jónsson stekkur upp en Ágúst Birgisson setur hann undir pressu.
Agnar Smári Jónsson stekkur upp en Ágúst Birgisson setur hann undir pressu. vísir/vilhelm
Jafntefli varð niðurstaðan í stórleik 9. umferðar Olís-deildar karla þar sem Valur tók á móti FH. Eftir hreint út sagt ótrúlega loka mínútu varð loka niðurstaðan 28-28. Staðan var einnig jöfn þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 14-14.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var vopnaður myndavélinni í Origo-höllinni í kvöld og tók þessar frábæru myndir sem fylgja fréttinni.

Leikurinn byrjaði heldur rólega og eftir 10 mínútna leik var staðan aðeins 2-2. En þá var eins og kveikt væri á leikmönnum því rúmum tveimur mínútum seinna var staðan orðin 5-5. 

Seinni hluta fyrri hálfleiks var spilaður góður handbolti, mikil gæði í sóknarleiknum og markvarslan frábær. Daníel Freyr Andrésson var með 11 varða bolta í fyrri hálfleik. Liðin skoruðu 9 mörk hvort á seinni 15 mínútunum, hraður leikur og bæði lið voru að refsa fyrir öll mistök sem gerð voru. Staðan að fyrri hálfleik loknum, 14-14. 

FH mætti ekki til leiks í seinni hálfleik og náðu heimamenn fljótlega góðri forystu. 18-14 var staðan eftir 6 mínútur og FH ekki enn búið að skora í síðari hálfleik. Valsmenn héldu forystunni áfram og Halldór Jóhann, þjálfari FH, neyðist til að taka leikhlé þegar 20 mínútur eru eftir af leiknum.

Það var alvöru harka í kvöld.vísir/vilhelm
FH náði í framhaldinu góðu áhlaupi og minnkuðu leikinn niður í eitt mark, 22-21, þegar stundarfjórðungur er eftir. Heimamenn hleyptu þeim þó ekki nær og voru alltaf skrefinu á undan. 

Valur leiddi með einu marki þegar 50 sekúndur eru eftir af leiknum, 27-26. Leikurinn var alls ekki búinn og það átti ýmislegt eftir að gerast. FH jafnar leikinn í næstu sókn, 27-27. Valur heldur af stað í sókn þegar rúmar 30 sekúndur eru eftir, Magnús Óli Magnússon skoraði og kom þar sínum mönnum yfir en það var Arnar Freyr Ársælsson sem skoraði fyrir FH og jafnaði leikinn aftur og staðan þá 28-28 þegar um 4 sekúndur eru eftir. 

Valsmenn keyrðu af stað og Róbert Aron Hostert tók af skarið en brotið var á honum. Ásbjörn Friðriksson var einn af þeim sem mættu Róberti en Ásbjörn fór í andlitið á honum og Róbert lá eftir. Það varð allt vitlaust á vellinum, leiktíminn rann út og dómarar leiksins þurfti að skoða myndbandsupptökur til að ákveða hvort um brot hafi verið að ræða. 

Niðurstaðan var sú að Ásbjörn fékk beint rautt spjald fyrir að slá í andlitið á Róberti og Valur fékk vítakast. Anton Rúnarsson fór á punktinn en skot hans var yfir markið. Svekkjandi jafntefli niðurstaðan fyrir Val en FH-ingar fagna stiginu eftir slakan síðari hálfleik. Lokatölur í hreint mögnuðum leik, 28-28.

Róbert liggur eftir undir lokin.vísir/vilhelm
Af hverju varð jafntefli?

Þegar tvö bestu lið deildarinnar mætast þá verður oft niðurstaðan jöfn. Fyrri hálfleikurinn var svakalega jafn en það voru svo Valsmenn sem tóku af skarið í þeim síðari. Valur tók alla stjórn á leiknum, spiluðu góðan sóknarleik, varnarleikurinn var kaflaskiptur en markvarslan frábær. Hvort ástæðan fyrir jafnteflinu sé af því að Valur gaf eftir undir lokin eða endurkoma hjá FH er erfitt að segja, en sú staðreynd að Anton hafi ekki skorað úr vítinu er ein ástæða þess.

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel Freyr Andrésson, markmaður Vals, var frábær í leiknum og þá sérstaklega fyrri hálfleik. Hann endaði með 18 varða bolta og 40% markvörslu. 

Magnús Óli Magnússon var markahæsti leikmaður Vals, skoraði 9 mörk og átti mjög góða innkomu í liðið

Ásbjörn Friðriksson var eins og oft áður stoð og stytta FH liðsins. Hann skoraði 10 mörk í dag og var atkvæðamestur gestanna. Markmenn FH liðsins áttu einnig góðan leik í dag, Birkir Fannar byrjaði leikinn og varði 8 bolta, en þegar hann datt niður kom Kristófer Fannar Guðmundsson inn og átti heldur betur mikilvægar vörslur, hann endaði með 7 bolta. 

Hvað gekk illa? 

Innkoma FH inní síðari hálfleik var slök, þeir mega vera ánægðir með þetta stig sem þeir fengu hér í dag en að sama skapi verður að teljast lélegt hjá Val að klára ekki leikinn. Valur hafði leikinn í höndum sér en missti hann niður á loka mínútunum. 

Leikurinn var svipaður hjá báðum liðum, sóknarleikurinn góður, markvarslan góð en varnarleikurinn var kaflaskiptur. 

Hvað er framundan? 

Bæði lið halda norður yfir heiðar í næstu umferð. FH mætir þar Akureyri á sunnudaginn og á mánudaginn mæta Valsmenn KA. 

Halldór á hliðarlínunni í kvöld.vísir/vilhelm
Halldór Jóhann: Miðjan var kolrangt framkvæmd

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, var brjálaður út í ákvörðun dómaranna á loka augnabliki leiksins. Það var þó ekki vítið og rauða spjaldið sem hann var ósáttur við heldur var það miðjan sem Valsmenn tóku, hann segir að um ólölega miðju hafi verið að ræða.

„Dómararnir sáu atvikið aftur svo það hlýtur að vera rétt ákvörðun hjá þeim. En ég er ekki ósáttur við það heldur það að miðjan er kolrangt framkvæmd hjá Val. Það er ástæðan fyrir því að þeir komast áfram í sóknina, það er stóra vandamálið. Af því að dómarinn ákveður að flauta miðjuna á og sér ekki mistökin þá getur hann ekki farið til baka.“ sagði Halldór ósáttur við þá ákvörðun. 



Þrjú mörk voru skoruð á loka mínútunni en Valur keyrði í hraða sókn þegar örfáar sekúndur voru eftir. Það var erfitt að segja til um það hvort miðjan hafi verið lögleg eða ólöglega en Halldór segist hafa séð það og að um ólöglega miðju hafi verið að ræða

„Það var mikill hraði hjá báðum þessum liðum, þetta eru tvö frábær handboltalið. En við tökum þessu stigi, við vorum komnir 5 mörkum undir og tveimur mörkum undir þarna í lokin svo ég er hrikalega ánægður með það hvernig við klárum leikinn, mikill styrkur hjá okkur“ sagði Halldór sem hefur engin svör við því hvernig liðið hans mætti til leiks í seinni hálfleik.

„Við komum bara ekki inní seinni hálfleikinn, ég veit ekki hvað það var. Við töluðum um ákveðna hluti í hálfleik um hvað við ætluðum að gera en við urðum passívir og fórum að gera bara tóma þvælu. Við hleyptum þeim nátturlega 5 mörkum yfir það er rosalega erfitt gegn Valsmönnum.“ sagði Halldór að lokum

 

Snorri og Gulli leggja á ráðin í kvöld.vísir/vilhelm
Snorri Steinn: Fengum dauðafæri til að klára þetta

„Þetta er mjög svekkjandi“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, að leik loknum

„Við vorum komnir í góða stöðu og spiluðum heilt yfir góðan leik. Við létum reka okkur útaf of oft þarna á kafla. Við fengum dauðafæri til að klára þetta undir lokin og svekkjandi að það hafi ekki tekist.“ 

„Ég er aðallega ósáttur með að hafa misst niður þetta forskot sem við höfðum. Við misstum aðeins taktinn við þessar brottvísanir sem við fengum. Án þess að hafa greint leikinn núna þá eru þetta fyrstu viðbrögð, en ég þarf að skoða þetta betur til að geta greint leikinn.“ sagði Snorri Steinn sem segist vera heilt yfir sáttur með leik sinna manna en eftir að hafa misst niður fimm marka forskot sé hann svekktur með leikinn

„Ég er mjög ánægður með baráttuna og viljan sem þeir sýndu en þegar maður er kominn í svona stöðu þá er maður bara svekktur að hafa ekki tekið bæði stigin.“

 

Einar Rafn: Að sjálfsögðu fer þetta í taugarnar á mér

„Við tökum þessu stigi“ sagði Einar Rafn Eiðsson, leikmaður FH.

„Við vorum komnir fjórum til fimm mörkum undir þegar korter var eftir af leiknum. Þetta var keimlíkt því sem gerðist í ÍBV leiknum nema við unnum hann. Svo heilt yfir er ég ánæður með þetta stig.“

Eftir mjög jafnan fyrri hálfleik þar sem bæði lið voru að spila góðan handbolta þá mættu FH-ingar ekki grimmir til leiks í þeim síðari og lentu þegar mest lét fimm mörkum undir. Einar Rafn viðurkennir að þetta hafi verið slök kafli en breyting á varnarleiknum kom þeim aftur inní leikinn

„Við vorum að prufa 5-1 vörn, hún var ekki alveg að virka hjá okkur fannst mér. Við færðum okkur svo yfir í 3-2-1 á síðasta korterinu. Þá sóttum við hraðaupphlaup og fórum í kontakt, þá komumst við inní leikinn“

Einar Rafn var besti leikmaður Olís-deildarinnar fyrir áramót í fyrra. Þá hafði hann skorað 83 mörk og var frábær leik eftir leik. Hann hefur hins vegar átt erfitt uppdráttar það sem af er tímabils, hefur skorað aðeins 27 mörk í 9 leikjum. Einar segir að þetta sé vissulega áhyggjuefni hjá honum

„Að sjálfsögðu fer þetta í taugarnar á mér. Ég er bara búinn að vera í vandræðum með öxlina á mér og þá verð ég bara að spila boltanum í staðinn fyrir að skjóta á markið. Sérstaklega þegar skotin eru ekki að rata á rétta staði, þá reyni ég að gera hitt vel.“ sagði Einar að lokum

 

Anton Rúnarsson klúðraði víti á ögurstundu í kvöld.vísir/vilhelm
Anton: Ég var allan tímann 100% á því að ég myndi skora

Anton Rúnarsson, leikmaður Vals, skoraði tvö mörk í dag, bæði úr vítaköstum en það var loka kastið sem skipti öllu máli. 

„Mér fannst við vera með góð tök á leiknum en svo hleyptum við leiknum í smá spennu og kannski full mikla dramatík þarna undir lokin, en við hefðum átt að vera búnir að klára þetta fyrr.“ sagði Anton sem var ángæður með leikinn sem liðið spilaði í dag og ánægður með stígandann sem það hefur sýnt undanfarna leik.

„Magnús Óli var frábær í dag og líka Danni (Daníel Freyr Andrésson) í markinu. Við erum með hörkulið og menn voru að stíga upp í dag. Það er batnandi taktur í okkar leik, það er ekki spurning.“ 

Valur fékk eins og áður hefur verið nefnt, víti þegar leiktíminn var liðinn. Anton er vítaskytta liðsins og hafði skorað úr báðum vítaköstunum sem Valur hafði fengið í leiknum en loka vítið klikkaði og niðurstaðan svekkjandi jafntefli.

„Svona er sportið. Ég var allan tímann 100% á því að ég myndi skora en því miður klikkaði ég í dag. Þetta getur komið upp í næsta leik og þá skora ég. Maður verður bara að taka þessu, maður er súr í kvöld eða bregðast liðsfélögunum en vonandi get ég bætt upp fyrir þetta sem fyrst.“ 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira