Umfjöllun: Katar - Ísland 2-2 | Þrettán leikir í röð án sigurs

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Albert Guðmundsson í leiknum gegn Belgíu.
Albert Guðmundsson í leiknum gegn Belgíu. vísir/getty
Sigurþurrð íslenska karlalandsliðsins í fótbolta hélt áfram þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Katar í vináttulandsleik í Belgíu í kvöld.

Erik Hamrén er án sigurs eftir fyrstu sex leikina í starfi landsliðsþjálfara og liðið hefur ekki unnið síðustu 13 leiki sína, eini sigurinn á árinu kom í fyrsta leik ársins, vináttuleik við Indónesíu.

Leikurinn í kvöld byrjaði eins illa og hægt var. Katar fékk aukaspyrnu úti á vinstri kantinum, rétt fyrir utan vítateigshornið. Fyrirgjöfin inn á teiginn sveif yfir allan pakkann og Rúnar Alex Rúnarsson í markinu og endaði í marknetinu. 1-0 fyrir Katar eftir þriggja mínútna leik.

Abdelkarim Hassan var í rangstöðu þegar spyrnan kom frá Hassan Al-Haydos og var líklega í sjónlínu Rúnars Alex, spurning hvort þetta mark hefði fengið að standa ef myndbandsdómgæslutækni nyti við.

Næstu mínútur var lítið í gangi en þegar íslenska liðið komst í betri takt tók það völdin á vellinum og var mun meira með boltann.

Það var samt lítið sem íslenska liðið gerði við boltann af viti og ógnaði Saad Al Sheeb lítið í markinu. Það var helst þegar Albert Guðmundsson var með boltann að eitthvað gerðist, hann átti nokkra frábæra spretti og var maður fyrri hálfleiks.

Eftir hálftímaleik fékk Ísland aukaspyrnu þegar Arnór Sigurðsson var felldur rétt fyrir utan teiginn. Ari Freyr Skúlason steig upp og tók spyrnuna. Glæsilegt skot hans fór í stöngina og þaðan í markið. Boltinn virtist hins vegar vera á leið aftur í burt frá markinu af slánni en bak Al Sheeb markvarðar Katar sendi hann í netið og markið því skráð sem sjálfsmark.

Katar átti nokkrar hættulegar skyndisóknir undir lok fyrri hálfleiks sem urðu þó ekki að almennilegum færum og staðan 1-1 í leikhléi. Íslenska liðið betra í fyrri hálfleik en hvorugur markvörðurinn þurfti mikið að láta til sín taka.

Landsliðsþjálfararnir Hamrén og Freyr Alexandersson hafa um nóg að hugsavísir/getty
Seinni hálfleikurinn var mjög daufur.

Katar byrjaði af krafti og átti dauðafæri eftir tvær mínútur þegar Akram Afif komst framhjá Rúrik Gíslasyni og sendi stórhættulegan bolta inn í teiginn en Al-Haydos náði sem betur fer ekki tá í boltann undir pressu frá Herði Björgvin Magnússyni.

Íslenska liðið náði þó að kæfa kraftinn í því katarska og á 55. mínútu sótti Hjörtur Hermannsson vítaspyrnu upp úr aukaspyrnu Ara Freys. Kolbeinn Sigþórsson fór á punktinn og skoraði sitt 23. landsliðsmark fyrir Ísland.

Kolbeinn er nú aðeins þremur mörkum frá því að jafna markamet Eiðs Smára Guðjohnsen og er þungu fargi líklega af honum létt að vera búinn að koma boltanum í netið í bláu treyjunni eftir langa og stranga fjarveru. Margir stuðningsmanna Íslands glöddust að minnsta kosti yfir því að sjá þennan frábæra markaskorara finna markaskóna að nýju.

Eftir að Ísland komst yfir leyfðu íslensku strákarnir þeim katörsku að hafa boltann heldur mikið. Katararnir gerðu hins vegar lítið við boltann annað en að skjóta af löngu færi hátt yfir eða langt framhjá.

Þar til eitt skotið fór beint á markið, fast og hnitmiðað skot, og það endaði í marknetinu. Eftir að Rúnar Alex hafði verið nær áhorfandi í leiknum þá stóðst hann ekki prófið þegar kröftum hans þurfti á að halda.

Skotið var vissulega fast og uppi við slána, en Rúnar Alex sá það koma allan tímann og hefði líklega átt að gera betur. Hannes Þór Halldórsson þarf í það minnsta ekki að hafa áhyggjur af því að stöðu hans sem fyrsti valkostur í markið sé ógnað miðað við frammistöðu Rúnars í kvöld.

Eftir jöfnunarmark Katar horfðu leikmenn í raun bara á tímann fjara út. Íslenska liðið ógnaði marki Katar örsjaldan, eitt besta færið til þess að taka sigurinn kom korteri fyrir leikslok þegar Albert átti góðan sprett inn í teiginn, boltinn barst til Rúriks með hjálp Arnórs Sigurðssonar en Rúrik þurfti að leggja boltann fyrir sig og á þeim tíma sem það tók náði varnarmaður Katar að koma sér fyrir og verja skotið.

Erik Hamrén er því sigurlaus eftir fyrstu mánuðina í starfi. Seinni hálfleikurinn í þessum leik var alls ekki til þess að hlýja undir vonarglæðum en ekkert stórslys heldur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira