Sport

Tíu klukkutíma aðgerð Sophiu gekk vel og hún er ekki lömuð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sophia Florsch.
Sophia Florsch. Vísir/Getty
Þýski ökumaðurinn Sophia Florsch er nú að jafna sig eftir tíu klukkutíma aðgerð sem hún gekkst undir í dag eftir hræðilegt slys í formúlu 3 kappakstri í gær.

Hin sautján ára gamla Sophia hryggbrotnaði í slysinu eftir að hafa flogið út úr brautinni á um 276 kílómetra hraða.

Það er ótrúlegt að Sophia hafi lifað slysið af.  Þegar fólk sér myndbandið þá sannfærast flestir um að verndarengill hafi vakað yfir þýska táningnum í gær. Myndband af árekstrinum má sjá hér fyrir neðan.





Frits van Amersfoort, eigandi ökuliðsins hennar, Van Amersfoort Racing, bauð upp á góðar fréttir í kvöld þegar BBC hafði samband. Samkvæmt þeim fréttum mun Sophia Florsch ekki vera lömuð.

„Við óttuðumst það að hún gæti verið lömuð og þess vegna varð hún að fara strax í aðgerð. Við erum ótrúlega ánægð með það að hún sé á réttri leið og að allt hafi gengið vel. Enginn óttast lengur lömun,“ sagði Frits van Amersfoort við BBC.







Læknar notuðu bein úr mjöðminni hennar til að laga einn hryggjaliðinn. Aðgerðin var mjög flókin og tók næstum því hálfan sólarhring.

Blaðamaður BBC spurði Frits van Amersfoort hvort hann búist við því að Sophia Florsch muni keppa aftur í kappakstri.

„Ég er nokkuð viss um að hún muni gera það en eftir nokkurn tíma auðvitað. Sem betur fer er nú kominn vetur og hún fær því tíma til að jafna sig. Ég er viss um að hún kemur til baka. Þegar kappaksturinn er á annað borð kominn í blóðið þitt þá vilja allir snúa aftur í sportið sem þeir elska,“ sagði Frits van Amersfoort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×