Erlent

Árásarmaður felldur á sjúkrahúsi í Chicago

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn lögregluþjónn er sagður í alvarlegu ástandi.
Einn lögregluþjónn er sagður í alvarlegu ástandi. Getty/Tribune News Service
Minnst þrír eru sagðir í alvarlegu ástandi eftir að skotárás var gerð á Mercy-sjúkrahúsinu í Chicago í kvöld. Talsmaður lögreglunnar sagði á Twitter að tilkynningar hefðu borist um að margir hefðu orðið fyrir skoti og bað hann íbúa um að halda sig frá svæðinu. Árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglu en einn lögregluþjónn er meðal hinna særðu.

Enn sem komið er hafa engar aðrar fréttir borist af dauðsföllum.

Samkvæmt NBC sagðist eitt vitni hafa séð marga sem urðu fyrir skoti og honum virtist árásarmaðurinn vera að skjóta fólk af handahófi. Árásarmaðurinn hafi þó fyrst verið að tala við konu áður en hann tók upp byssu, skaut hana og byrjaði að skjóta á aðra.

Hér má sjá hvað nokkur vitni sem AP ræddi við höfðu að segja.

CNN hefur heimildir fyrir því að lögreglan hafi borið kennsl á árásarmanninn og hann hafi verið 32 ára gamall karlmaður. Nafn hans hefur ekki verið opinberað.

Þá ræddi fréttastöð CNN við vitni sem segist hafa séð árásarmanninn skiptast á skotum við lögreglu fyrir utan sjúkrahúsið.

„Ég get ekki einu sinni lýst því hvernig mér leið. Þetta er sorglegt. Það er ekki einu sinni hægt að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi,“ sagði vitnið sem heitir Steven White.

Lögreglan er framkvæmdi leit á sjúkrahúsinu ef ske kynni að árásarmennirnir væru fleiri. Svo virðist ekki hafa verið raunin og hefur lögreglan náð stjórn á svæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×