Jól

Fagurrautt og rússneskt vinaigrette-salat á jólaborðið

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
Um árabil hefur Nathalía farið í messu klukkan sex á aðfangadag og finnst það órjúfanlegur hluti jólanna. "Síðustu árin hef ég sungið einsöng við aftansöng og einnig á jóladag í hinum ýmsu kirkjum.“ MYND/ERNIR
Um árabil hefur Nathalía farið í messu klukkan sex á aðfangadag og finnst það órjúfanlegur hluti jólanna. "Síðustu árin hef ég sungið einsöng við aftansöng og einnig á jóladag í hinum ýmsu kirkjum.“ MYND/ERNIR

Nathalía Druzin Halldórsdóttir söngkona á rætur að rekja til Rússlands. Hún útbýr meðlætið með hangikjötinu á jóladag eftir þarlendri uppskrift.

„Ég bý gjarnan til rússneskt rauðrófusalat, sem er gott meðlæti með íslenska hangikjötinu. Það er ekki bara bragðgott heldur fagurrautt og fallegt á jólaborðið. Mamma er frá Rússlandi og hefur búið á Íslandi síðan 1973. Hún hefur alltaf verið dugleg við að útbúa meðlæti að rússneskum sið og einnig alls konar rússneskan mat og ég hef reynt að læra af henni,“ segir Nathalía, söngkona og markaðs- og kynningarstjóri Íslensku óperunnar.

Kjöt, fiskur og grænmeti, ekki síst rótargrænmeti, er einkennandi fyrir rússneska matargerð. „Dæmigerður rússneskur matur er fremur einfaldur og bragðgóður. Þegar mamma flutti hingað til lands kom henni helst á óvart hversu lítið úrval var af grænmeti og ávöxtum. Hún notaði hvítlauk óspart í matargerð en hann var ófáanlegur og því voru vinir sem komu að utan beðnir um að koma með hvítlauk með sér,“ rifjar Nathalía glaðlega upp.

Engin jól í 70 ár

Nathalía segir að jólasiðirnir séu annars að mestu íslenskir, enda er hún fædd hér á landi og uppalin. „Þegar mamma fæddist í Leníngrad var Rússland hluti af Sovétríkjunum. Á Sovéttíma, eða í um sjötíu ár, voru jólin ekki haldin hátíðleg opinberlega heldur voru mikil hátíðahöld tengd nýju ári. Þá birtust ævintýrapersónurnar Ded Moros, eða Frosti afi, og Snegúr­otsja, eða Snjóstúlkan, sem eru eigin­lega rússneski jólasveinninn og barnabarn hans. Þau eru bláklædd og tákna veturinn og koma til að skemmta og gleðja börnin. Eftir fall Sovétríkjanna var byrjað að halda jól á ný en jóladagur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar er tveimur vikum seinna en í hinum vestræna heimi eða 6. og 7. janúar. Við fjölskyldan héldum rússnesk jól með því að borða góðan mat og jólatréð fékk ávallt að standa fram yfir þann tíma,“ greinir Nathalía frá.

Armenskar smákökur og ensk jólakaka

Nathalía segist ekki baka mikið fyrir jólin en jólabaksturinn á æskuheimilinu var með alþjóðlegum blæ. 

„Mamma var með öðruvísi jólabakkelsi en allir aðrir. Hún bakaði m.a. alltaf armenskar smákökur, enska jólaköku og þýskt Stollen, sem var látið taka sig í kaldri geymslu fram að jólum. Eitt af því fáa sem ég baka sjálf eru litlir marenstoppar, eða bizet, sem voru alltaf á jólunum heima. Þeir eru skjannahvítir og fallegir og bornir fram í kristalskál. Topparnir minna á snjókorn og eru mjög jólalegir,“ segir Nathalía og bætir við að börnum hennar og eiginmannsins, Inga Rafns Ólafssonar, finnist mikil jólastemning í því að baka smákökur fyrir jólin en stundum sé deigið þó keypt úti í búð.

Vinaigrette-salatið er fagurrautt og fallegt á jólaborðið. MYND/ERNIR

Gefur gjafir sem eyðast

Nathalía segist byrja fremur seint að undirbúa jólin og jólatréð er aldrei sett upp fyrr en á Þorláksmessu. „Innst inni er ég dálítill spennufíkill og finnst bara skemmtilegra að hespa hlutum af, ekki síst þegar kemur að því að kaupa jólagjafir. Ég vil helst gefa gjafir sem eyðast, svo sem gjafabréf í nudd eða snyrtingu og miða í leikhús eða á tónleika. Svo gef ég líka alltaf bækur og tónlist. Síðustu gjafirnar kaupi ég gjarnan korter í lokun á Þorláksmessu,“ segir hún með bros á vör.

Um árabil hefur Nathalía farið í messu klukkan sex á aðfangadag og finnst það órjúfanlegur hluti jólanna. „Síðustu árin hef ég sungið einsöng við aftansöng og einnig á jóladag í hinum ýmsu kirkjum. Mér finnst það mjög hátíðlegt. Í ár ætla ég að syngja á jólatónleikum í Fríkirkjunni, ásamt Valgerði Guðnadóttur, kvennakórnum Concordia og strengjasveit undir stjórn Lilju Eggertsdóttur. Tónleikarnir verða í hádeginu þann 6. desember og allur ágóði rennur til Kvennadeildar Landspítalans,“ segir Nathalía sem ver aðfangadagskvöldi með stórfjölskyldunni.

„Við erum ekki með sama jólamatinn ár eftir ár og höfum haft ýmsa góða rétti á boðstólum. Maðurinn minn ólst upp við miklar hefðir í jólamatseld og var vanur að fá aspassúpu í forrétt, hamborgarhrygg í aðalrétt og ananasfrómas í eftirrétt. Mér finnst eitthvað fallegt við að hafa alltaf það sama í matinn en það hentar mér líka vel að breyta til,“ segir hún að lokum.


Rússneskt vinaigrette-salat (fyrir 6 manns sem meðlæti)

  • 3 meðalstórar rauðrófur
  • 3 meðalstórar kartöflur
  • 3 meðalstórar gulrætur
  • ½ bolli af grænum baunum (ekki Ora)
  • ½ bolli af súrkáli (vökvinn tekinn frá og geymdur)
  • 3 saltaðar agúrkur
  • 2-3 msk. kaldpressuð sólblómaolía
  • 1 lítill rauðlaukur
  • Salt og pipar
  • Steinselja til skrauts

Sjóðið rauðrófurnar sér þar til þær eru orðnar mjúkar. Sjóðið kartöflur og gulrætur saman þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Skerið rótargrænmetið í fallega litla teninga, blandið saman og látið kólna.

Bætið söltuðu gúrkunum og súrkálinu saman við auk lauksins og baunanna og blandið varlega saman. Setjið safann af súrkálinu saman við olíuna og dreypið yfir og blandið. Saltið og piprið eftir smekk. Látið standa í lokuðu íláti í ísskap og látið taka sig. Berið fram með saxaðri steinselju.








×