Jól

Vegan mest viðeigandi á jólum

Oddur Freyr Þorsteinsson skrifar
Guðrún segir að kærleikurinn eigi að ná inn á allar hliðar jólahátíðarinnar og þess vegna finnst henni það aldrei eiga betur við að borða vegan mataræði en á jólum. MYND/SIGTRYGGURARI
Guðrún segir að kærleikurinn eigi að ná inn á allar hliðar jólahátíðarinnar og þess vegna finnst henni það aldrei eiga betur við að borða vegan mataræði en á jólum. MYND/SIGTRYGGURARI Mynd/Sigtryggur Ari

Guðrún Sóley Gestsdóttir, dagskrárgerðarkona og umsjónarmaður Menningarinnar á RÚV, hefur verið vegan í þrjú ár. Hún segist hafa orðið vegan dýranna vegna og að það hafi aldrei verið erfitt að temja sér nýtt mataræði, heldur hafi það verið stórskemmtilegt að uppgötva nýjar leiðir til að næra sig. Hún segir að það sé sjaldan auðveldara og skemmtilegra að vera vegan en um jólin og það eigi sérlega vel við kærleiks- og friðarboðskap hátíðarinnar

Fann ótrúlegan mun

„Mér fannst magnað að finna muninn á því hvernig mér leið eftir að ég varð vegan. Öll melting batnaði til muna og ég hætti að finna fyrir sljóleika og þreytu eftir þungar máltíðir,“ segir Guðrún Sóley. „Ég er léttari á fæti og orkumeiri og maturinn sem ég borða þjónar mér betur. Eftir að ég varð vegan komst líkamsræktin mín líka á alveg nýtt stig.



Ég borða mikið af olíum og góðri fitu. Olíur gefa mér ótrúlega góða orku, smyrja liðina, hjálpa meltingunni og gera húðinni og hárinu greiða,“ segir Guðrún Sóley. „Maður verður að borða fitu til að brenna fitu og ég moka í mig olíum, avókadó og góðri fitu úr hnetum í massavís.“

Eins og að fá nýja verkfærakistu

„Það er svo gaman að vera vegan! Það er fjör að byrja að nota alveg ný hráefni, gera alls konar tilraunir og veganísera gamlar uppskriftir,“ segir Guðrún Sóley. „Þetta er eins og þér sé rétt alveg glæný verkfærakista með verkfærum sem þú þarft að læra að nota og þú uppgötvar að þau eru miklu skilvirkari og skemmtilegri en þau gömlu.“



Guðrúnu Sóleyju þótti ekki erfitt að temja sér að elda vegan mat. „Ég nenni ekki flókinni eldamennsku, en á internetinu er svo brjálæðislega mikið af upplýsingum, leiðbeiningum, kennslumyndböndum og alls kyns spjallsvæðum að ég var með mjög skýrar og góðar leiðbeiningar frá byrjun,“ segir Guðrún Sóley. „Ég marineraði mig svolítið í þessu efni fyrstu dagana og byrjaði svo bara að prófa mig áfram og færði mig smátt og smátt á metnaðarfyllri slóðir.“

Enginn sér eftir að auka grænmetið

„Ég hef aldrei hitt vegan manneskju sem sér eftir því að hafa orðið vegan og ekki heldur fólk sem eykur hlutfallið af grænmeti í mataræðinu sínu og finnst það vera vond ákvörðun,“ segir Guðrún Sóley. „Enginn virðist sjá eftir að prófa þetta og þetta skaðar engan, sem er dásamlegt.



Þeir sem hafa áhuga á að temja sér vegan mataræði ættu bara að tékka á öllum skemmtilegu kennslumyndböndunum, bloggunum, Instagram-reikningunum og svo framvegis. Veganistur.is og Reykjavegan eru tvær góðar íslenskar síður og svo er Vegan Ísland einn af stærstu íslensku Facebook-hópunum og hann er frábær,“ segir Guðrún Sóley. „Á vefsíðu veganúar er líka hægt að kynna sér fyrstu skrefin. Síðan má hringja í mig. Ég er á sólarhringsvakt fyrir alla sem vilja vera vegan.“

Vegan jól auka kærleikann

„Mér finnst það meira viðeigandi að vera vegan á jólunum en á nokkurri annarri árstíð. Þetta er hátíð sem gengur út á kærleika, frið og samhygð og þá finnst mér þetta vera alveg rakið mál, því fyrst og fremst gengur veganismi út á að borða mat sem sprettur ekki upp úr neins konar þjáningu eða umhverfisspjöllum,“ segir Guðrún Sóley. „Kærleikurinn á að ná inn á alla þætti hátíðarinnar.



Ég gat líka haldið í alls konar hefðir, sem betur fer eru til dæmis grænar baunir og rauðkál vegan og það er til mikið úrval af vegan sælgæti,“ segir Guðrún Sóley. „Jólahlaðborð eru kannski ekki alveg eins spennandi og áður, en að öðru leyti eru jólahefðirnar óbreyttar. Vegan jól gefa mér bara meiri dýpt í kærleikann og auka gleðina.“



Sjá einnig: Oumph! wellington og sæt­kar­töflu­mús með kara­mellu­pekan­hnetum

Endalausir möguleikar

Guðrún segir að það sé allur gangur á því hvað vegan fólk borðar í jólamat.



„Hnetusteik er orðin hversdagsleg, það er svo oft boðið upp á hana. Það er hægt að fara frumlegri leiðir. Það er hægt að fá alls konar útgáfur af Wellington til dæmis og meðlætið og allar sósurnar er auðvelt að veganísera,“ segir Guðrún Sóley. „Sjálf borða ég yfirleitt Portobello Wellington og ég held að ég geri það líka í ár. Mér finnst það alltaf hrikalega gott. Innbakað Oumph! hefur líka komið sterkt inn, það er alveg eins og kjúklingur. Það eru endalausir möguleikar, þetta er bara spurning um að vera frumlegur í hugsun.“


Tengdar fréttir

Oumph! wellington og sæt­kar­töflu­mús með kara­mellu­pekan­hnetum

"Það getur eiginlega ekki klikkað að leiða saman Oumph! og dýrðina sem er smjördeig. Það var góður dagur þegar ég uppgötvaði að langflest smjördeig er vegan, enda langoftast framleitt úr smjörlíki og olíum,“ segir Guðrún Sóley Gestsdóttir dagskrárgerðarkona.








×