Menning

Hefur ekki séð nein dollaramerki í auga útgefandans

Jakob Bjarnar skrifar
Það var hægara sagt en gert að ná í Ófeig, sem er ekki á Facebook og dvelur helst í útlöndum þar sem hann fer um víðan völl.
Það var hægara sagt en gert að ná í Ófeig, sem er ekki á Facebook og dvelur helst í útlöndum þar sem hann fer um víðan völl. visir/vilhelm

Ófeigur Sigurðsson er ekki með þekktari rithöfundum þjóðarinnar … var. Var. Hann var ekki með þekktari höfundum þar til 2014 er hann sendi frá sér skáldsöguna Öræfi sem sló rækilega í gegn; seldist í bílförmum og var lofuð í hástert af gagnrýnendum. Þetta fer ekki endilega saman. Og fór svo að Ófeigur hlaut Íslensku bókamenntaverðlaunin það árið.



Ófeigur kom fyrst fram á rithöfundavöllinn sem hluti skáldahópsins Nýhil, hópur sem vakti athygli um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar en þar voru höfundar sem hafa látið að sér kveða; Kristín Eiríksdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og Steinar Bragi svo einhver séu nefnd. Ungskáldahópur sem taldi um tug.

Ungskáld er teygjanlegt hugtak

„Ég var um 25 til 26 ára þegar þetta var. Ekkert ungskáld. En, reyndar, ef eitthvað hugtak er teygjanlegt þá er það ungskáldið,“ segir Ófeigur í samtali við blaðamann Vísis.



Ófeigur segist hafa byrjað að skrifa skáldskap í menntaskóla.



„Ég byrjaði á að skrifa texta á ensku. Fyrir dauðarokkshljómsveitina sem ég var í. Cranium. Í Bústaðahverfinu. Þar spilaði ég á bassa og söng. Jú, vorum meðal þeirra stóru og náðum þeim árangri að gefa út snældu. Síðustu snælduna sem gefin var út. Við sukkum með spólunni. Þetta er í kringum 1990, þá var ég allur í dauðarokkinu.“



Og, hlustarðu enn á dauðarokk?

„Jájá, maður keyrir sig í gang á morgnana með dauðarokki.“



Ófeigur dregur reyndar nokkuð í land þegar blaðamaður spyr hann forviða hvort það sé ekki frekar hart? Segir að það sé kannski ekki alla daga.



„Alla jafna hlusta ég á barokk tónlist þegar ég er að vinna, það skilar sér ef til vill í textann.“

Það var ekki hlaupið að því að ná í rithöfundinn. Blaðamaður Vísis náði loks að hitta hann í útgáfuhófi sem haldið var honum til heiðurs á Holtinu.

Heimskur snjallsími

„Suma fer maður með í Kolaportið en Ófeigur á heima á Holtinu,“ sagði útgefandi Ófeigs ánægður með sinn mann. Ófeigur las þar uppúr nýrri bók sinni Heklugjá og upplýsti að hann hafi einmitt hafið skriftir fyrir alvöru þá er hann starfaði þar sem næturvörður. Einn af þeim. Nema, Ófeigur er til dæmis ekki á Facebook… Af hverju ertu ekki á Facebook?

„Ég var nú búinn að steingleyma tilvist Facebook. Er það ekki bara eitthvað úr fornöld? Annars var ég að eignast minn fyrsta snjallsíma svokallaðan og rangnefndan, mér finnst hann frekar heimskur, ég hef hingað til verið á móti öllum hlutum með forskeytinu snjall, ég er svo hræddur um að þróa með mér einhverja minnimáttarkennd gagnvart hlutveruleikanum.“



Mér sýnist það algengt meðal rithöfunda að þeim sé beinlínis í nöp við Facebook?



„Já, er það? Það þykir eitthvað, ekki flott? Eða hvort rithöfundar séu svona fornir í sér?

Ég var á Facebook í einn mánuð árið 2014 og það er einn versti mánuður í mínu lífi. Það var útgáfukvíði á hverjum einasta degi.

Maður er svo samviskusamur og þetta tók mikið pláss í mínu lífi; mér fannst ég þurfa að vera þátttakandi. Leggja mitt af mörkum. Leggja mitt til málanna og halda þessu gangandi. Eins og rithöfundum líður gagnvart bókmenntunum. Þeir telja sig verða að senda frá sér verk reglulega til að halda þessu gangandi. Einn stór útgáfukvíði varð að hundrað litlum. Viðvarandi ástandi.

Svo samviskusamur er Ófeigur að þegar hann var á Facebook, einn mánuð, þá fylgdi því viðvarandi samviskukvíð. Honum fannst hann stöðugt þurfa að leggja sitt af mörkum.visir/vilhelm

Þannig að ég fór með himinskautum þegar ég náði að skrá mig þarna út og það var ekkert auðvelt. Mig minnir að ég hafi þurfti að senda bréf til forstjórans, herra Sykurfjalls og gefa upp margar ástæður fyrir því að ég vildi losna úr hlekkjum hans.“



Zuckerberg læsir í menn klónum?



„Já. En, maður reynir að lágmarka viðveru sína við tölvuna og að sá tími þar tengist bókmenntum. Eða beina fíknisjúkdóm sínum í bókmenntirnar, það hefur reynst mér lánsamast. Maður vinnur við tölvu og vill ekki binda líf sitt alfarið við tölvuskjáinn. Ég held að rithöfundar séu líka lengi að tileinka sér nýja tækni. Þeir eru í huganum við ritvélina.“

Kannski örvar allur þessi samfélagsmiðlasori skáldskapinn

En, ritvélarnar eru fyrir þína tíð? Þú hefur væntanlega skrifað allan þinn texta á tölvu?

„Já, í það minnsta ekki á ritvél. Ég er með fettiss fyrir lindarpennum og bleki og nota það mikið. En, jú ég hef gefið út ljóðabækur, pikkað þær inn á ritvél en það var af fagurfræðilegri ástæðu. Ekki nauðsyn. Ég á líka nokkrar ritvélar til að leika mér á.“



En, finnst þér þetta á einhvern hátt, þessi opna og ofsafengna tjáning sem ríkir vera ógn við rithöfunda? Einhvers konar kvoða sem treður sér inní allar glufur þannig að ekkert pláss er fyrir skáldskap?



„Nei. Eða, öll þessi umræða og froða fer bara fram hjá mér. Ég held að þetta sé sitthvor veruleikinn; skáldskapurinn og samfélagsmiðlarnir og skarist lítið. Ef til vill örvar allur þessi sori skáldskapinn og göfgar fólk?“



Hér neðar má heyra Ófeig lesa upphaf nýútkominnar bókar sinnar, Heklugjá.

Þetta með Öræfi, hversu mjög það verk sló í gegn á öllum póstum og markaði þannig spor í útgáfusöguna, svokallaður svartur hestur sinnar tíðar, seldist í bílförmum og útgefendur harla kátir... þetta hlýtur að hafa komið þér í opna skjöldu?



„Já, það kom mér mikið á óvart. Ég bjóst ekki ekki einu sinni við því að þeir vildu gefa þetta út.

Ég var svartsýnn þegar ég lagði handritið inn og upplifði mig sem leiðinlegasta mann í heimi. Bókin á undan, Landvættir, hún seldist í 247 eintökum. Þessi fór í 12 þúsund eintökum.

Þegar maður er á þeim stað að hafa selt 247 eintök af sinni síðustu bók sem tók sex ár að skrifa, býst maður ekki við neinu í líkingu við þetta. Ég var svartsýnn en það hjálpaði til við það sem ég var að gera í þeirri bók. Mér var alveg sama. Það var hundur í mér og ég skemmti sjálfum mér og skrattanum.“  



Hélt að þetta væri búið spil eftir Landvættirnar

Má kannski segja að þegar maður telur sig þurfa að höfða til einhvers sem enginn veit hver er, þóknast, þá hverfi skáldskapurinn?



„Hverfur kannski ekki alveg, en ég hugsa ekki um neinn lesanda þegar ég skrifa. Kannski vegna þess að ég held á hverjum degi að ég sé búinn að vera og gefi aldrei aftur út bók. Ég hélt þetta væri búið spil eftir Landvættirnar. Eftir Öræfi komst ég að þeirri niðurstöðu að listamaðurinn verður að hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig, hann þarf að gerast algerlega narsissískur til að ná til fjöldans. Það er ekki hægt að gera öllum til hæfis. Ég get ekki verið að hugsa um lesendur, ég get rétt svo hugsað um sjálfan mig.“

Ófeigur dregur ekki fjöður yfir það að Öræfi hafi breytt lífi sínu, hann var þess albúinn að breyta um kúrs.visir/vilhelm

Þú er þess albúinn að breyta um kúrs þegar þú ert að skrifa Öræfi þannig að ekki er ofsagt að sú bók hafi þá breytt lífi þínu?



„Jájá, hún gerði það. Algjörlega. En, ég hélt sömu vinnuaðferðum og ég gerði við Öræfi núna. Ég var ekki að hugsa inn í einhverjar væntingar. Það er ekki mjög kreatívt.“



Í eftirtektarverðu viðtali sem Magnús Guðmundsson tók við þig og birtist í Fréttablaðinu í upphafi árs 2015 lýsirðu þér sem hálfgerðum einfara og það liggur því beint við að spyrja þig hvernig það hafi lagst í þig að lenda svo rækilega í sviðsljósinu með Öræfi?

„Það á einstaklega vel við mig að vera í sviðsljósinu svo lengi sem ég er þar einn.“

Einn og ekki einn. Eftir Öræfi og alla athyglina sem þeirri bók fylgdi hvarf Ófeigur af sjónarsviðinu. Hann flutti af landi brott.  



Fann ástina og fegurðina og fór af landi brott

„Ég er nú staddur í mjög löngum bíltúr sem hófst í Reykjavík. Ég fann ástina og fegurðina og við pökkuðum saman fötum og bókum og hundamat í gamlan Cherokee-jeppa og keyrðum til Berlínar. Nú eru liðin á þriðja ár síðan við lögðum af stað, höfum ekið um alla Evrópu og erum stödd í gyðingahverfinu í Antwerpen um þessar mundir. Ég gaf nú út þýðingu á Róbertó Bolanjó árið 2015, bók sem heitir Verndargripur og mér þykir ákaflega vænt um og er stoltur af. Það var heldur ekki sérlega auðvelt verk.“

Ófeigur og Kolur. Þeir eru nánir félagarnir. Ófeigur talar um hundinn sem dulvitund sína, hann þarf ekki annað en líta á Kol og þá veit hann hvernig honum líður.fbl/stefán

En, þar sem almenningur skildi við þig fyrir fjórum árum, þá á síðum Fréttablaðsins, stóðstu á vegamótum, óvænt velgengni hafi fallið þér í skaut en þú varst þá nýskilinn og tættur. En með hund, stríðhærðan Schäffer. Hvar er hundurinn?

„Kolur er að passa gyðingana í demantahverfinu í Antwerpen. Verst hvað þeir eru hræddir við hann, fyrir því liggja sögulegar ástæður, ekkert persónulegt.“



Og hvernig er fjölskyldan samansett?

„Það er maður (sjálfur) og kona, hundur og bíll. Við höfum verið á þvælingi í þrjú ár. Ég hef verið að skrifa í hinum og þessum húsum, kofum, tjöldum og í bílnum.“

Mikil kynningarreisa um Ameríku

Ekki sér fyrir enda á þvælingi, jafnvel heimsálfa milli. Ófeigur er nýkominn frá Ameríku. Öræfi hafa verið þýdd yfir á ensku og búið að selja útgáfuréttinn til Bandaríkjanna, til Dallas nánar tiltekið. Þetta sætir tíðindum. Um er að ræða tiltölulega nýtt forlag sem heitir Deep Vellum. Þetta er vaxandi útgáfa sem tekur mið af öðru forlagi sem heitir Open Letter sem gefur meðal annars út íslenska höfunda svo sem Guðberg, Kristínu Ómardóttur, Sölva Björn og Braga Ólafsson.



„Já, Dallas er mín önnur borg. Þar á ég marga vini og mér finnst ég vera komin heim þegar ég kem til Texas. Olía, byssur og risastórir hattar.

Mér þykir vænna um fáar borgir eins og Dallas. Ef maður sést þar fótgangandi er maður talinn heimilislaus.

Það er ekki ósvipað Reykjavík. Hraðbraut liggur í gegnum miðborgina. Þetta er bílasamfélag en mikil gróska í menningarlífinu. Allt að gerast í Dallas.“



Þar var Ófeigur á vegum Deep Vellum, sem reyndar gefur einnig út bækur Jóns Gnarr, og ferðaðist um Bandaríkin þver og endilöng.



„Túrinn spannaði tvær vikur um 9 borgir. Allt frá New York og Washington til San Francisco, frá Los Angeles til Dallas, Austin, Houston, hvarvetna tekið með kostum og kynjum.“

 



Las upp úr Öræfum um öll Bandaríkin

Ófeigur segir það frekar fátítt að höfundar séu sendir í svo langan kynningartúr.



„Yfirleitt eru um að ræða skottúra. En, þetta vatt svona uppá sig. Það duttu þarna inn háskólar, mest megnis, sendiráð, bókmenntahátíð og svo bókabúðir.“

Ófeigur segist feiminn við sölutölur, svo feiminn að hann hefur ekki einu sinni borið sig eftir því hversu stórt upplag af Öræfum hefur verið prentað í Bandaríkjunum.visir/vilhelm

Ófeigur flaug um milli Bandarískra stórborga á vegum Deep Vellum. En, hann vill ekki gera mikið úr því að þetta hafi verið stórstjörnulíf. Tíu manns á upplestri þykir fín mæting. En, hann segir að þá hafi komið sér vel að hafa hafið sinn feril við að skrifa enska söngtexta fyrir dauðarokksveit. Og reynsla úr upplestrarferðum Nýhil kom að notum en í viðtali við Hauk Ingvarsson sem birtist í TMM árið 2011 segir af hringferð hópsins um landið 2003, upplestri á Kaffi Krók á Sauðárkróki „en þar kom það skáldunum skemmtilega á óvart hversu vel var mætt. Í ljós kom að salurinn hafði verið tvíbókaður, golfklúbbur staðarins var þar fyrir með árshátíð.“



Bandaríkin eru markaður sem flestir höfundar láta sig dreyma um að hasla sér völl á. Þá eru menn fyrst búnir að meika það. Hvernig meta hinir bandarísku útgefendur möguleika Öræfa á þeim vettvangi?



„Ég held þeir telji horfur góðar og nota lýsingarorð sem ég get ekki haft eftir, annars er alltaf allra veðra von þegar öræfin eru annars vegar. En Bandaríkin eru erfiður og lokaður markaður. Eins og öfugt Alcatraz. Svo ég noti klaufalega líkingu. Talað er um að það séu þrjú prósent þýddra bóka sem ná þar máli. Meðan þetta eru 50 til 60 prósent útgáfu í Evrópulöndum. Þeir líta lítið út fyrir sig sjálfa. Þannig að ég get ekki verið með neinar væntingar um að bókin muni ná á yfirborðið en mjög gleðilegt að bókin skyldi vera þýdd og gefin út. Ég hef ekki heyrt hvernig hún gangi. Ég er feiminn þegar kemur að sölutölum. Ég hef ekki einu sinni heyrt hvað hún hefur verið prentuð í miklu upplagi.“

Ekki neitt sem heitir óþýðanlegt

Þýðandi Ófeigs er Lytton Smith sem nýlega var tilnefndur til þýðingarverðlauna og þá fyrir Tómas Jónsson metsölubók. Varst þú í einhverjum samskiptum við hann í tengslum við þýðinguna?

„Ég las þýðinguna yfir og bar saman við frumtextann. Lytton kemur öllu til skila, andanum, stemningunni og takti textans. En hann hafði nokkuð margar spurningar varðandi ýmis orð og atriði. Margir töldu þessa bók óþýðanlega. Ég var heldur þeirra skoðunar að það væri mjög auðvelt að þýða bókina þar sem hún er full af nöfnum sem þarf ekki að þýða. En það er ekki til neitt sem heitir óþýðanlegt heldur bara góðir og slæmir þýðendur. Og Lytton er fyrsta flokks.“

Ófærð hefur verið skilgreind sem séríslenskur póstmódernismi. Ófeigur segist ekki vita nákvæmlega hvað það þýðir en maðurinn hljóti að vita um hvað hann er að tala.visir/vilhelm

Þó auðvitað sé ágætt að hafa vaðið fyrir neðan sig, stilla væntingum í hóf eru ýmis jákvæð teikn á lofti þess efnis að Öræfi muni höfða til fleiri lesenda en íslenskra. Þannig birtist afar lofsamlegur dómur um bókina nýverið og þar greinir gagnrýnandinn Öræfi sem séríslenskan póstmódernisma. Hvernig slær slík flokkun eða greining þig?

„Bara vel. Ætli þessi greining stafi ekki af sjálfsmeðvitund bókarinnar og nærveru höfundarins í verkinu. Það er persónulegt vandamál höfundarins en talið verkinu til tekna. Nei, ég veit satt að segja ekki alveg hvað hann á við. Vissi ekki að þetta væri til. En, ég held að þessi maður sé prófessor og sérfræðingur í íslenskum bókmenntum. Þannig að hann hlýtur að vita um hvað hann er að tala.“

Skárra að vera flokkaður en óflokkaður eins og með ruslið

Veltirðu fyrir þér í hvaða kategóríu þú ert settur sem rithöfundur?

„Nei, Mér finnst gaman að vera í mörgum kategóríum, eða kvíum eins og þær heita í frumspeki og sauðfjárrækt.“



Ég veit að mörgum rithöfundum finnst það beinlínis óþægilegt að vera flokkaðir, ert þú þar?

„Já, en er ekki skárra að vera flokkað rusl en óflokkað? Ekki síst nú á tímum. Þá þykir mjög gott að vera flokkaður.

Maður hefur þá í það minnsta einhvern flokk til að brjótast út úr. En ekki brjótast um, hamast sem naut í flagi í einhverri merkingarleysu.

En, það er satt, ég gaf út sögulega skáldsögu, en gat engan veginn séð mig sem höfund sögulegra skáldsagna. Þannig að, ég myndi í það minnsta ekki vilja dvelja lengi í hverri kví.“



Þú hófst þinn feril sem ljóðskáld. En, virðist hafa fundið fjölina þína við skáldsagnaritun. Sástu það fyrir?



„Ég get ekki sagt það. Nei, ég held ég sé ekki með neinn ákveðinn stað þar sem ég vill vera á. Þó ég sé auðvitað með markmið, þá eru þau margskonar. Yfirleitt þau að skrifa eitthvað sem maður getur ekki skrifað. Því fylgir frelsi að vera amatör í því sem maður er að gera. Um leið og maður er búinn að mastera það fer maður yfir í annað form. Ég er lélegur í að skrifa samtöl því ég hlusta aldrei á annað fólk tala saman. Þannig að ætli leikritun liggi ekki beinust við næst. Leikrit án samtala? Nei, en nú er ég búinn að skrifa þrjár bækur með eldfjall í bakgrunni. Hraunið hlýtur að fara að storkna, þetta mikla flæði og við taki knappari stíll.“

 



Næsta bók verður blautur vestri

Ófeigur segist vera með verk í vinnslu.



„Sem verður blautur vestri. Mýrarvestri. Skinnföt og fjöldamorð í Árnessýslu. Annars er ég feiminn við að tala um hugmyndir og bækur vinnslu, þær vilja hlaupa frá manni þegar maður byrjar að tala um þær. Hugmyndir eru móðgunargjarnar.“



Ófeigur telur ekki úr vegi þetta sem rekja má til strúktúralisma að höfundar hafi í raun ekki meiri rétt á að fjölyrða um merkingu verka sinna en hver annar lesandi. Ófeigur er hikandi við að ræða um verk sín.



„Kannski eru höfundar ekki best til þess fallnir að tala um bækurnar sínar. Þeir þurfa í það minnsta að þjálfa sig uppí því. Sem er annað fyrirbæri. Það er svo margt sem flæðir beint úr undirmeðvitund höfundar sem hann veit ekkert hvað er.

Lesendur eru oftast snjallari en höfundurinn, svokallaðir snjalllesendur. Með þremur ellum.“

Bókmenntir eru algerlega ábyrgðarlausar

En, á Íslandi aðhyllast flestir hina ævisögulegu bókmenntafræði sem snýst um að finna fólkið í bókunum?

„Já, ég held að maður eigi að halda þessum heimum aðskildum. Ríki skáldskaparins er sér heimur og hann á ekkert erindi inní raunveruleikann. Það á ekkert að vera að draga skáldskapinn inní raunveruleikann eins og naut til slátrunar, en skáldskapurinn dregur til sín raunveruleikann og misnotar hann þar að vild.“



En, er þetta ekki ábyrðarlaus afstaða?



„Bókmenntir eru algerlega ábyrgðarlausar. Og þær eiga að vera það. Það á að ríkja alger lögleysa í ríki skáldskaparins.“

Ófeigur hefur enga trú á uppeldisgildi bókmennta. Menn geti þess vegna breyst í stórglæpamenn eftir lestur bókar sem býr yfir fallegum boðskap. Og öfugt.visir/Vilhelm

Á stuttu tímabili, uppúr miðri síðustu öld, varð til bókmenntagrein í Skandinavíu, félagslegt raunsæi – boðskapsbókmenntir. En, fljótlega áttuðu menn sig á því að með því að gefa lesandanum ekkert rými til túlkunar stóðu þeir uppi með nokkuð sem kannski er erfitt að kenna við list. Hún felst kannski ekki í því að troða boðskap í viðtakandann?

„Nei, algjörlega ekki. Listamaður á ekki að taka hugsun frá fólki heldur gefa því hana. Hin sálrænu áhrif eru öfugsnúin. Þú gætir kannski lesið bók sem býr yfir fallegum boðskap en breyst í stórglæpamann á eftir, kannski því bókin var svo óþolandi. Fólk rís helst upp gegn leiðindum. Siðlausar bækur geta orkað siðbætandi. Ég held það. Margir héldu að drengir sem spiluðu morðóða tölvuleiki yrðu morðóðir sjálfir. Það væri líka gaman að sjá þann glæpaflokk sem myndaður væri af lesendum glæpasagna.“

Grimmileg kremjandi pressa en öll frá höfundi sjálfum

Nú er komin ný bók eftir þig úr prentsmiðju, Heklugjá, og víst er að útgefendur eru spenntir. Hin óvænta velgengni Öræfa, setur hún pressu á þig?



„Já, það er grimmileg pressa sem er að kremja mig til dauðs. En hún er öll frá sjálfum mér komin, ég vil gera vel.“



Þannig að þú lætur sem þú sjáir ekki blikið í auga útgefandans, dollaramerkið?

Ég hef ekki séð dollaramerkið í augum útgefandans. Hann setur upp sólgleraugu þegar hann sér mig.

Ég er kannski bara svona grænn, skærgrænn. En ég held að það sé ekki hægt að gera svona kröfur hvort sem er. Allir mjög góðir og velviljaðir í útgáfunni í kringum mig.“



Nafninu svipar til titils síðustu skáldsögu þinnar, svipar þeim að efni og efnistökum til hvorrar annarrar?



„Nú eru það Rangvellingar sem skjálfa á beinunum. Nei, nei. Efnistökin eru allt önnur enda þótt enn á ný gnæfi eldfjall yfir í bakgrunninum, í þriðja sinn, svo mér er næst að fara kalla þetta eldfjallaþríleik eða suðurlandsþríleik, sem hófst með Jóni og endar ofan í Heklugjá. Þær eru allar í senn sögulegar og sjálfsævisögulegar. En nýja bókin er, nafninu samkvæmt, á mun dýpri og myrkari miðum.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×