Sport

Óvænt skyndibitastríð setur mark sitt á þungavigtartitilinn

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Vísir/Getty
UFC 230 fer fram í Madison Square Garden í nótt. Þungavigtarmeistarinn Daniel Cormier freistar þess að verja titilinn sinn í fyrsta sinn þegar hann tekst á við Derrick Lewis.

Bardaginn var settur saman fremur seint en UFC vantaði lengi vel aðalbardaga kvöldsins á UFC 230. Þetta er þriðja árið í röð sem UFC heimsækir Madison Square Garden og tók langan tíma að finna aðalbardaga kvöldsins.

Derrick Lewis komst heldur betur í sviðsljósið með sigri á Alexander Volkov á UFC 229 þann 6. október. Lewis var með skemmtilega endurkomu í bardaganum og kórónaði flottan sigur með stórkostlegu viðtali eftir bardagann sem vakti mikla athygli. Í viðtalinu fór hann úr stuttbuxunum þar sem honum var svo heitt í klofinu og hafði engan áhuga á titilbardaga enda var hann ekki með þol til þess.

Eftir frammistöðuna í viðtalinu og í bardaganum sjálfum fékk Lewis titilbardaga og eru aðeins þrjár vikur á milli bardaga hjá honum. Daniel Cormier gengur sjálfur ekki alveg heill til skógar en hann hefur verið að glíma við handarmeiðsli síðan hann sigraði Stipe Miocic í júlí.

Aðdragandi bardagans hefur verið skemmtilegur enda hefur vinalegur rígurinn á milli Lewis og Cormier einkennst af ást þeirra á skyndibita. Derrick Lewis hefur ekki farið leynt með dálæti sitt á Popeyes kjúklingnum. Fyrr í vikunni fékk Lewis samning við Popeyes og mun borða þar frítt út ævina ef hann vinnur Cormier.

Cormier var svekktur að fá ekki samning við Popeyes en gerði þess í stað styrktarsamning við hamborgarakeðjuna Carl’s Junior. Cormier mun gefa fría hamborgara frá Carl’s Junior ef hann vinnur. Það er gott að vera í þungavigtinni og þurfa ekki að hafa áhyggjur af vigtinni.

Það er því ekki bara UFC beltið sem er undir í nótt heldur einnig mikill skyndibiti fyrir aðdáendur Cormier eða Lewis.

UFC 230 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending kl. 2 í nótt.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×