Fótbolti

Jón Daði með brotið bein í baki

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Daði Böðvarsson fór mjög vel af stað á tímabilinu með Reading áður en hann fór að lenda í meiðslavandræðum
Jón Daði Böðvarsson fór mjög vel af stað á tímabilinu með Reading áður en hann fór að lenda í meiðslavandræðum vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson braut bein í neðra baki og verður því áfram frá keppni í einhvern tíma.

Landsliðsframherjinn var ekki í landsliðshópnum fyrir leikina tvo í október vegna meiðsla og hann tók ekki þátt í sigri Reading á Bristol City í gær.

Hann sagði frá því á Twitter í dag að hann væri beinbrotinn.

„Ég spilaði í gegnum mikinn sársauka síðustu vikur. Ég fór til sérfræðings sem fann út úr því að það var brotið bein neðarlega í bakinu,“ sagði Selfyssingurinn.

„Ég veit ekki hvað það er með mig og meiðsli undanfarið. Ég er mjög vonsvikinn en þetta er víst erfiði hluti íþróttarinnar. Ég kem til baka sterkari.“

Ekki kom fram í færslu Jóns Daða hversu lengi hann verður frá en þessi tíðindi þýða að litlar líkur eru á því að hann verði í íslenska landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Belgíu í Þjóðadeildinni og vináttuleikinn við Katar um miðjan mánuðinn. Hópurinn ætti venju samkvæmt að vera tilkynntur í næstu viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×