Erlent

Útlit fyrir sigur Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti á kosningafundi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á kosningafundi. vísir/getty
Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu á morgun í sögulegum kosningum til fulltrúa- og öldungadeildar Bandaríkjaþings. Nær öruggt þykir að Demókrötum muni takast að tryggja sér meirihluta í fulltrúadeild og binda þannig enda á yfirráð Repúblikana yfir báðum deildum þingsins.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafa farið mikinn undanfarna sólarhringa og lagt lóð sín á vogarskálarnar í þeim sýslum og ríkjum þar sem mjótt er á munum.

„Það gæti gerst,“ sagði Trump á framboðsfundi í Virginíu í gær þegar talið barst að líklegum kosningasigri Demókrata í neðri deild þingsins. „En hafið ekki áhyggjur. Ég mun spjara mig.“

Glati Repúblikanar meirihluta í fulltrúadeildinni er ljóst að Trump mun eiga mun erfiðara með að koma sínum stefnumálum áleiðis á Bandaríkjaþingi.

Þannig snýst kosningabaráttan að miklu leyti um forsetann og stefnumál hans. Um leið er ljóst að Demókratar muni sækja hart að forsetanum rætist spár um fulltrúadeildina.

Heimildir AP-fréttaveitunnar herma að Demókratar séu nú þegar að undirbúa að blása nýju lífi í rannsókn upplýsinganefndar þingsins á tengslum rússenskra yfirvalda við kosningabaráttu Trumps.

Samhliða kosningum til Bandaríkjaþings munu Bandaríkjamenn kjósa um allt mögulegt. Allt frá lögleiðingu kannabisefna til skólastjórnenda, frá dómurum til sorphirðustjóra.

Jafnframt verður kosið um ríkisstjórastóla í 36 af 50 ríkjum Bandaríkjanna. Líklegt þykir að Repúblikanar haldi 23 ríkisstjórastólum og Demókratar nítján, en í átta ríkjum er afar mjótt á munum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×