Enski boltinn

Shaqiri ekki með Liverpool til Belgrad af öryggisástæðum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Shaqiri fær ekki að fara með Liverpool til Serbíu
Shaqiri fær ekki að fara með Liverpool til Serbíu Vísir/Getty
Xherdan Shaqiri er ekki í leikmannahópi Liverpool sem heldur til Serbíu í dag til að leika gegn Rauðu Stjörnunni í Meistaradeild Evrópu á morgun.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, viðurkennir að ákvörðunin sé tekin af öryggisástæðum en búist var við að Shaqiri, sem er Kosóvó-Albani þó hann spili fyrir Sviss, myndi fá sérstaklega óblíðar móttökur á heimavelli Rauðu Stjörnunnar.

Serbar hafa átt í pólitískum útistöðum við bæði Kosóvó og Albaníu á undanförnum árum og því lítil vinátta á milli þjóðanna. Shaqiri hellti olíu á eldinn þegar hann fagnaði sigurmarki sínu gegn Serbíu á HM í Rússlandi með arnarmerki til að sýna stuðning við Albaníu.

Þó Shaqiri hafi sjálfur sagt að hann óttist ekki að heimsækja Belgrad hefur Klopp tekið ákvörðun um að hann ferðist ekki með liðinu.

„Við höfum heyrt af því og lesið um hvernig móttökur Shaq myndi fá. Þó að við vitum ekki hvað myndi gerast viljum við fara þangað og vera 100% einbeittir á að spila fótbolta og viljum ekki hugsa um neitt annað,“ segir Klopp og heldur áfram.

„Við erum Liverpool FC og erum risaklúbbur en við erum ekki að senda nein skilaboð með þessu. Við höfum engar pólitískar skoðanir og viljum bara einbeita okkur að því að spila fótbolta.“

„Við viljum forðast allt sem gæti mögulega truflað okkur í þessu 90 mínútna verkefni og af þeirri ástæðu fer Shaq ekki með okkur. Hann samþykkir það og skilur ákvörðunina. Shaq er leikmaðurinn okkar, við elskum hann og hann mun spila fullt af leikjum fyrir okkur, en ekki á morgun,“ segir Klopp ennfremur.

Leikur Rauðu Stjörnunnar og Liverpool hefst klukkan 17:55 á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×