Erlent

Pól­verjar í þétt­býli hafna stjórnar­flokknum PiS

Atli Ísleifsson skrifar
PiS verður áfram sterkasti flokkurinn á níu af sextán héraðsþingum og er með hreinan meirihluta á sex þeirra.
PiS verður áfram sterkasti flokkurinn á níu af sextán héraðsþingum og er með hreinan meirihluta á sex þeirra. Getty/nurPhoto
Pólski stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti (PiS) virðist hafa beðið ósigur í sveitarstjórnarkosningum í Póllandi í gær. Frá þessu greinir Deautsche Welle.

Útgönguspár benda til að borgarstjóraefni flokkabandalags undir forystu Borgaravettvangs hafi haft betur gegn fulltrúum PiS í stórborgunum Krakow, Gdansk og Kielce. Áður hafði PiS þurft að lúta í lægra haldi í höfuðborginni Varsjá, Poznan og Lodz.

Kosningar gærdagsins voru síðari umferð kosninganna þar sem kosið var milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferðinni 21. október. Kosið var um borgar- og sveitarstjóra í 649 borgum og bæjum.

PiS er íhaldssamur flokkur sem hefur barist gegn straumi innflytjenda til landsins, en flokkurinn hefur helst sótt fylgi sitt til strangtrúaðra kaþólikka og fólks á landsbyggðinni. Borgaravettvangur er miðjuflokkur sem er jákvæður í garð Evrópusamstarfsins.

Gjá milli þéttbýlis og landsbyggðar

Úrslit helgarinnar þykja undirstrika gjána milli þéttbýlis og landsbyggðar í landinu. Þrátt fyrir að hafa misst borgarstjóra í fjölda stórborga tryggði PiS sér 34 prósent sæta í sveitarstjórnum, en bandalag flokka undir forystu Borgaravettvangs 28 prósent.

PiS verður áfram sterkasti flokkurinn á níu af sextán héraðsþingum og er með hreinan meirihluta á sex þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×