Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Valur 28-30 │Öflugur sigur Vals í Eyjum

Einar Kárason skrifar
vísir/daníel
Það var mikið í húfi og allt lagt undir þegar ÍBV tók á móti Val í Vestmannaeyjum í kvöld. Bæði lið hafa ekki byrjað nægilega vel og sátu í 5. og 7. sæti Olís deildarinnar fyrir leikinn í dag. Valsmenn með 7 stig og Eyjamenn 6.

 

Agnar Smári Jónsson gaf tóninn fyrir það sem koma skildi í byrjun leiks með fyrstu 2 mörkum leiksins.

Agnar hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er móti en hann spilaði einmitt með Eyjamönnum í fyrra og rætt var um í Seinni Bylgjunni hvort Agnar þyrfti ekki bara að koma sér aftur til Eyja til að komast í gang. Nú var hann mættur og sýndi hvað í honum býr.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af og skiptust liðin á að skora nánast allan hálfleikinn en munurinn milli liðanna varð aldrei meiri en 2 mörk fyrstu 30 mínúturnar. Leikið var af mikilli hörku og eitt beint rautt spjald fékk að líta dagsins ljós í fyrri hálfleik þegar Orri Freyr Gíslason fór með hendurnar af krafti í andlitið á Sigurbergi Sveinssyni og lék Orri því ekki meira eftir það. Valsmenn þar að missa öflugan varnarmann af velli rétt fyrir hálfleik en þeir fóru inn í hléið í stöðunni 14-16.

Eftir jafnan fyrri hálfleik bjuggust sennilega allir við því sama en það var ekki uppi á teningnum.  Daníel Freyr Andrésson í marki Valsmanna hafði átt flottan fyrri hálfleik með 8 bolta varða, en í þeim síðari breyttist hann vel uppbyggðan múrvegg.

Á fyrstu 5 mínútum síðari hálfleiks skoruðu gestirnir 3 mörk áður en Sigurbergur náði loksins að skora fram hjá Daníel. Valsmenn því komnir með 5 marka forustu sem þeir héldu nánast allan hálfleikinn.

Mestur varð munurinn 7 mörk en það var ekki fyrr en á 58.mínútu að Eyjamenn náðu að minnka muninn í 2 mörk. Það varð eftir furðulegt atvik sem enginn skilur nema þá kannski Anton Rúnarsson, leikmaður Vals, og dómarar leiksins.

Anton fékk þá að líta 2x2 mínútur, með 30 sekúndna millibili, ásamt því að Ýmir Örn Gíslason var rekinn af velli í 2 mínútur. Valsmenn því 2 færri, Eyjamenn með boltann og 3 marka munur. Áður en leikurinn náði að hefjast að nýju fékk Anton rautt spjald.

Grétar Þór Eyþórsson minnkaði þá muninn í 2 mörk en Róbert Aron Hostert náði að koma Valsmönnum aftur í 3 mörk. Daníel Freyr varði svo frá Theódóri Sigurbjörnssyni og gestirnir langt komnir með að tryggja sigurinn.

Á loka mínútu leiksins náði Róbert Sigurðsson þó að minnka muninn í 1 mark þegar 10 sekúndur voru eftir. Sveinn Aron Sveinsson rak þá síðasta naglann í kistuna og endaði leikurinn með sigri Valsmanna, 28-30, í frábærri auglýsingu fyrir íþróttina.

 

Af hverju unnu Valsmenn?

Markvarslan gerði gestunum hrikalega mikið sem og að Agnar Smári fór í gang. Seinni hálfleikur þeirra var frábær. Eyjamenn gerðu vel í að skapa færi en því miður fyrir þá fóru of mörg þeirra forgörðum.

 

Hvað gekk illa?

Leikmönnum ÍBV gekk oft á tíðum illa að koma boltanum í markið framhjá Daníel Frey, úr fínustu færum. Mikið var um feilsendingar og óþarfa tapaða bolta hjá báðum liðum.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði heimamanna skoraði Kári Kristján Kristjánsson 5 mörk, sem og Theódór Sigurbjörnsson. Kolbeinn Aron Ingibjargarson varði 10 skot í markinu.

Í liði gestanna var Agnar Smári atkvæðamestur með 9 mörk og hinn fyrrum leikmaður ÍBV, Róbert Aron Hostert skoraði 7. Daníel Freyr Andrésson varði þá 17 skot (40%).

 

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fara í Kaplakrika og slást við FH á meðan Valsmenn fara fullir sjálfstrausts norður á Akureyri.

Erlingur: Heilt yfir ekki nógu gott

,,Hann (Daníel Freyr Andrésson) náttúrulega ver og ver. Við tökum það ekki af þeim. Hann tekur örugglega 6 dauðafæri hjá okkur. Á sama tíma erum við líka að spila óskynsamlega.”

Valsmenn mættu mun grimmari í síðari hálfleikinn. Hvað fannst Erlingi um það?

,,Já, en við erum samt að spila okkur inn í færi og svo þurfum við náttúrulega aðeins að leysa þetta upp í lokin og gerðum vel í að koma okkur inn í leikinn. Við höfum svo sem tækifæri á kannski að ná allavega jafntefli úr því sem komið var en heilt yfir ekki nógu gott,” sagði Erlingur að lokum.

 

Agnar Smári: Ég er ekki meistari í október

,,Mér líður vel hér og hef spilað marga af mínum bestu leiknum hér á þessum velli og eins og Gunnar Berg (Viktorsson) sagði (í Seinni Bylgjunni á Stöð 2 Sport) að ég þyrfti bara að koma til Eyja og þá myndi ég verða góður,” sagði Agnar Smári Jónsson, leikmaður Vals að leik loknum.

,,Ég er ekkert að stressa mig (eftir dræma byrjun móts). Þetta kemur hægt og rólega. Ég er ekki meistari í október.”

Allt virtist sjóða upp úr í lokin þegar menn fuku af velli, hægri vinstri, og sumir oftar en aðrir. Hvað gekk á? ,,Ég hef ekki hugmynd sko. Ég var hinu megin á vellinum. Ætli það séu ekki bara litlu hlutirnir. Menn voru ekki alveg með fókus á þessu.”

Eyjamenn minnkuðu muninn, mönnum fleiri, undir lokin en Agnar fann ekki fyrir stressi. ,,Mér líður svo fáránlega vel hérna að ég hafði aldrei áhyggjur.”

,,Hrós til allra. Við spiluðum frábæra vörn og frábæra sókn. Við missum stóran bút úr vörninni þegar Orri (Freyr Gíslason) fær rautt. Við spilum bara vel úr því. Gerum góða hluti og loksins erum við svona ‘on point’ eiginlega allan leikinn.”

,,Jújú, ég er svona steiktur að mér er svona sléttsama sko. Ég er bara að spila handbolta og geri það á fullu og eftir leik eru þeir allir félagar mínir,” sagði Agnar að lokum aðspurður hvernig það væri að spila á móti sínum gömlu félögum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira