Innlent

Hugleiðandi sögustund með Óla Stef

Sighvatur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson tekur þátt í verkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem tilgangurinn er að leiða saman íþróttafélög og eldri borgara í höfuðborginni.

Fyrst haldið í Valsheimilinu

Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnastjóri á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg, segir að hugleiðsla og sögustund með Ólafi Stefánssyni hafi verið í boði í Valsheimilinu á dögunum og nú í framhaldi í vesturbænum. „Óli er frábær og skemmtilegur og svo gefandi, þess vegna fannst okkur svo gaman að hann vildi taka þátt í þessu með okkur,“ segir Sigríður.

„Hann gerir þetta með öðrum hætti, þetta er svolítið út fyrir kassann. En það er akkúrat það sem við eigum líka að bjóða uppá, að hafa smá gleði, smá hlátur, það er líka heilsueflandi.“

Ólafur Stefánsson gaf sig allan í flutning sögunnar um Óðin og Freyju.Vísir/Vilhelm
Ólafur flutti sögu um Óðin og Freyju úr norrænu goðafræðinni fyrir hóp eldri borgara í KR-heimilinu í morgun en Freyja er gyðja ástar og frjósemi.

Ekki fyrir alla

Friðgerður Hulda Jensdóttir, ljósmóðir í Reykjavík, var ein þeirra sem mætti á viðburð Ólafs í morgun. Eftir dágóða stund rölti hún þó fram á gang og hafði á orði að þetta hafi ekki alveg verið fyrir hana. Ólafur hafi staðið sig vel en framsetningin hafi verið mjög frjálsleg. Aðspurð hvort sýningin hafi verið of nútímaleg fyrir hennar smekk svaraði hún að hún hefði ekki vit á því. „En ég sé að þetta er allt annað en uppbyggjandi fyrir mig að minnsta kosti,“ sagði Hulda hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×