Innlent

Skilyrði um skírlífi umhugsunarvert

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Heilbrigðisráðherra segir mögulegt skilyrði um að samkynhneigðir karlmenn þurfi að hafa verið skírlífir í sex mánuði fyrir blóðgjöf vera umhugunarvert og nauðsynlegt að skoða með tilliti til mannréttindasjónarmiða. Breytingar á reglum um blóðgjöf eru í umsagnarferli hjá ráðuneytinu.

„Við sjáum að Norðurlöndin hafa öll tekið skref í áttina að því að leyfa samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð og við teljum fulla ástæðu til þess að endurskoða fyrri ákvarðanir ráðuneytisins í ljósi þess. Sú skoðun stendur enn yfir," segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Málið er nú í ferli innan Blóðbankans og hjá öðrum hlutaðeigandi aðilum. Sóttvarnarlæknir hefur þegar sagt að breytingarnar komi vel til álita, en þó með skilyrðum og þeirra á meðal eru ítarleg skimun og sex mánaða kynlífsbindindi að ungangenginni blóðgjöf.

„Þetta skilyrði hefur verið sett fram í löggjöf landanna í kringum okkur en mér finnst það mikið umhugsunarefni, þegar þessi leið er valin og spurning um jafna stöðu og mannréttindavinkla á því. Þetta endurspeglar ákveðna sýn á mismunandi stöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra í þessum efnum og mér finnst við eiga að taka það til skoðunar líka," segir Svandís.

Á endanum snúist málið þó fyrst og fremst um að tryggja öryggi sjúklinga.

„Og það er mitt hlutverk að gæta að því að það sé engu öryggi ógnað í þessum efnum, frekar en öðrum. En eftir þessu hefur verið leitað og kallað um langt árabil og ég vænti þess að við fáum botn í stöðuna á allra næstu mánuðum," segir Svandís.




Tengdar fréttir

Bann við blóðgjöf samkynhneigðra endurskoðað

Til skoðunar er að breyta reglum sem banna samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð á Íslandi. Málið er í ferli hjá heilbrigðisráðuneytinu og er niðurstaða væntanleg á næstu vikum eða mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×