Innlent

Fjörutíu ábendingar um duldar auglýsingar á einni viku

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Duldar auglýsingar virðast leynast víða, en þó fyrst og fremst á snapchat, instagram og bloggsíðum.
Duldar auglýsingar virðast leynast víða, en þó fyrst og fremst á snapchat, instagram og bloggsíðum. Getty/Thomas Trutschel
Tugir tilkynninga hafa borist Neytendastofu síðustu vikur um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum og bloggsíðum.

Í byrjun október bannaði Neytendastofa tveimur bloggurum á trendnet.is  að nota duldar auglýsingar. Neytendastofu hafði borist ábendingar um umfjallanir um ákveðnar vörur. Við meðferð málsins kom fram að bloggararnir höfðu þegið vöru að gjöf frá fyrirtækinu, taldi Neytendastofa því að um markaðssetningu væri að ræða sem kæmi ekki fram með nægilega skýrum hætti. Því taldi Neytendastofa að um duldar auglýsingar væri að ræða og að fyrirtækin sem seldu vöruna og bloggararnir hefðu brotið lög.

Send bréf til bloggara og snappara

Þórunn Anna Árnadóttir segir Neytendastofu berast reglulega ábendingar um duldar auglýsingar en eftir umfjöllun um þetta mál hafi fjöldinn margfaldast.

„Við fengum miklu meira af ábendingum og vikuna eftir umfjöllun hátt í fjörutíu ábendingar um að verið sé að auglýsa án þess að það komi fram. Þetta er á alls kyns miðlum, instagram, snapchat og bloggsíðum,“ segir Þórunn.

Í kjölfarið sendi Neytendastofa bréf til þeirra sem kvartað var undan til að upplýsa um þessar reglur og vekja athygli á þeim.

„Og sem betur fer taka flestir þessu vel og einnig nokkuð alvarlega. En þessi bréf voru bara til upplýsinga og engin mál eru núna í gangi gagnvart neinum af þessum aðilum,“ segir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri á neytendasviði Neytendastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×