Innlent

Borgaraþjónustan aðstoðar Íslendingana sem eru í haldi Ástralíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Áströlsk yfirvöld birtu þessar myndir í tengslum við málið en virði efnanna er um 2,5 milljónir ástralskra dollara.
Áströlsk yfirvöld birtu þessar myndir í tengslum við málið en virði efnanna er um 2,5 milljónir ástralskra dollara. ástralska tollgæslan
Mál tveggja Íslendinga sem eru í haldi í Ástralíu grunaðir um stórfelldan innflutning á kókaíni til landsins er komið inn á borð borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.

Þetta segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, í samtali við Vísi. Hann segir að borgararþjónustan sé að veita aðstoð sem henni er vanalega unnt að gera en samkvæmt upplýsingum á vef stjórnarráðsins snýr slík aðstoð meðal annars að því finna lögmenn sem hafa sérþekkingu á viðkomandi réttarsviði.

Greint var frá því í morgun að tveir Íslendingar hefðu verið handteknir í Melbourne síðastliðinn mánudag. Báðir hafa þeir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 13. febrúar.  

Annar mannanna var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Melbourne þar sem fjögur kíló af kókaíni fundust í ferðatösku hans. Hinn maðurinn var handtekinn á hóteli í Melbourne en á hótelherbergi hans fundust 2,7 kíló af kókaíni.

 

Vísir hafði í morgun samband við áströlsku tollgæsluna sem vísaði á áströlsku alríkislögregluna fyrir frekari upplýsingar um málið. Ekki hefur náðst í fjölmiðlafulltrúa lögreglunnar í síma en Vísir sendi fyrirspurn vegna málsins á lögreglu.

Mikill tímamismunur er á Íslandi og Ástralíu; komið er miðnætti í Melbourne og fimmtudagurinn 8. nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×