Handbolti

Sveinn og Hannes í eins leiks bann

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sveinn Jóhannsson, leikmaður ÍR.
Sveinn Jóhannsson, leikmaður ÍR. vísir/bára
Sveinn Jóhannsson, leikmaður ÍR, og Hannes Grimm, leikmaður Gróttu, voru báðir dæmdir í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd HSÍ.

Það var mikið af málum á borði aga- og úrskurðarnefndarinnar sem kom saman í gær og þar voru fjögur þeirra vegna rauðra spjalda leikmanna Olísdeildar karla.

Elías Bóasson úr ÍR og Bjarni Ófeigur Valdimarsson, FH, sluppu báðir við leikbönn. Þó var tekið fram að Bjarni Ófeigur hefði nú tvisvar fengið útilokanir vegna brota.

Sveinn fékk rautt spjald undir lok leiks ÍR og FH þann 1. nóvember. Í úrskurðinum segir það mat dómara að brotið falli undir reglu 8.6a: „sérstaklega gáleysisleg eða sérstaklega hættuleg aðgerð,“ og var ákveðið að dæma hann í eins leiks bann.

Sömu sögu má segja um Hannes Grimm sem fékk rautt spjald í leik Gróttu og Akureyrar á sunnudaginn síðasta fyrir brot á Brynjari Hólm Grétarssyni. Sérstaklega var vakin athygli á því að Hannes hefði nú hlotið tvær útilokanir.

Í öllum fjórum málum vakti aganefndin athygli á „stighækkandi áhrifum leikbanna skv. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar HSÍ um agamál.“ Í þeirri málsgrein er talað um að hafi leikmaður hlotið bann áður fái hann einn leik til viðbótar ofan á næsta bann, þar á eftir tvo leiki til viðbótar og svo framvegis. 

Úrskurðirnir taka gildi fimmtudaginn 8. nóvember. Hannes getur því tekið þátt í bikarleik Gróttu og Stjörnunnar í kvöld en verður ekki með þegar sömu lið mætast í Olísdeildinni á sunnudaginn. Þá missir Sveinn af leik ÍR og Fram sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×