Viðskipti innlent

Átján sagt upp hjá Eimskip

Birgir Olgeirsson skrifar
Um 1.850 manns starfa hjá Eimskipafélagi Íslands.
Um 1.850 manns starfa hjá Eimskipafélagi Íslands. Fréttablaðið/Anton Brink
Átján var sagt upp störfum hjá Eimskipafélagi Íslands í síðustu viku. Megnið af þeim starfaði á Íslandi og einhver hluti á erlendum skrifstofum félagsins. Á Íslandi náðu uppsagnirnar jafnt yfir félagið, bæði skrifstofufólk og starfsfólk á öðrum sviðum.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir í samtali við Vísi að uppsagnirnar hafi verið liður í hagræðingarvinnu sem hefur verið í gangi hjá félaginu undanfarin misseri. Fyrir hálfu ári eða svo voru einnig uppsagnir hjá félaginu, en þó ögn færri en í síðustu viku.

Spurður hvort farið verði í frekari uppsagnir á þessu ári segist hann ekkert geta gefið upp um það, en býst þó ekki við því miðað við hversu lítið er eftir af árinu.

Stjórnendur Eimskips lækkuðu nýverið afkomuspá félagsins fyrir árið um 15 prósent, og báru þar meðal annars við samdrátt í Noregi. Bilanir á frystiskipum höfðu einnig töluverð neikvæð áhrif á reksturinn. Innflutningur til Íslands hafði einnig verið minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Eimskip var stofnað árið 1914 og rekur 63 starfsstöðvar í 20 löndum í fjórum heimsálfum. Er félagið með 22  skip í rekstri og hefur á að skipa um 1.850 starfsmönnum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×