Erlent

Hvíta húsið bannar fréttamann CNN sem Trump hellti sér yfir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hvíta húsið hefur afturkallað passann sem veitir Jim Acosta, fréttamanni CNN, aðgang að blaðamannafundum í forsetabústaðnum. Þetta er gert í kjölfar þess að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lét Acosta heyra það á blaðamannafundi í gær en forsetinn sagði fréttamanninn meðal annars vera dónalegan og hræðilega manneskju.

Trump mislíkaði spurningar Acosta, ekki síst eftir að fréttamaðurinn spurði hann út í Rússarannsóknina svokölluðu, en boðað var til blaðamannafundarins vegna þingkosninganna sem fram fóru í Bandaríkjunum á þriðjudag.

Farið var um víðan völl á fundinum og þegar röðin kom að Acosta notaði hann tækifærið til þess að spyrja Trump út í orð hans um flóttamannalestina svokölluðu og svo Rússarannsóknina. Forsetinn var langt því frá sáttur við spurningar fréttamannsins og sagði meðal annars við Acosta:

„„Veistu hvað, ég held að þú ættir að leyfa mér að sjá um að stjórna landinu og þú sérð um að stjórna CNN. Ef þú gerðir það sómasamlega væri áhorfstölurnar ykkar ekki svona lélegar.“

Þá sagði Trump ítrekað að nú væri nóg komið, aðstoðarkona á fundinum reyndi meðal annars að grípa hljóðnemann af Acosta sem lét ekki af hendi. Það má síðan segja að forsetinn hafi hellt sér yfir Acosta:

„CNN ætti að skammast sín að hafa þig sem starfsmann. Þú ert ókurteis og hræðileg mannvera. Þú ættir ekki að starfa fyrir CNN.“



Nokkrum klukkutímum eftir fundinn skrifaði Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, á Twitter að forsetinn styddi frjálsa fjölmiðlun. Hvíta húsið myndi hins vegar aldrei líða það að blaðamaður leggi hönd á unga konu sem væri aðeins að vinna vinnuna sína. Því yrði passinn hans tekinn af honum.

Acosta endurtísti tísti Sanders og sagði orð Sanders einfaldlega lygi. Í yfirlýsingu CNN sagði jafnframt að Sanders væri að ljúga; hún færi fram með falskar ásakanir og væri að vísa í atvik sem hefði aldrei átt sér stað. Þá lýsti stöðin yfir fullum stuðningi við Acosta.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×