Enski boltinn

Leicester liðið mun skipta um búning í hálfleik á laugardaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikurinn á laugardaginn verður helgaður minningu Vichai Srivaddhanaprabha.
Leikurinn á laugardaginn verður helgaður minningu Vichai Srivaddhanaprabha. Vísir/Getty
Leicester City hefur nú gefið út hvernig hlutirnir verða í kringum leikinn á móti Burnley á laugardaginn en það verður fyrsti heimaleikur félagsins síðan að eigandi þess, Vichai Srivaddhanaprabha, lést í þyrluslysi fyrir utan King Power leikvanginn.

Það verður tveggja mínútna þögn fyrir leikinn auk þess að sérstakt minningarmynd um Vichai Srivaddhanaprabha verður sýnt fimmtán mínútum fyrir leik. Það er uppselt á leikinn en Leicester City biðlar til áhorfenda að vera allir komnir í sætin sín 25 mínútum fyrir leik.





Leikmenn Leicester City munu síðan ekki spila í sömu búningum í fyrri og seinni hálfleik. Í fyrri hálfleik munu leikmennirnir spila í búningum merktum minningarorðum um Vichai Srivaddhanaprabha en í þeim seinni munu leikmennirnir spila með barmmerki til minningar um fallna hermenn en minningardagur hermanna er 11. nóvember.

Þyrluslysið varð eftir síðasta heimaleik Leicester 27. október síðastliðinn og var Vichai Srivaddhanaprabha einn af fimm sem létust þegar þyrla hans hrapaði.

Allir leikmenn Leicester og Burnley mun vera með sorgarbönd í leiknum og allir stuðningsmenn fá einnig minningarmerki og sérstaka leikskrá með minningarefni um Vichai Srivaddhanaprabha.





Leicester mun setja upp sérstakan stað nálægt slysstaðnum þar sem stuðningsfólk og aðrir geta skilið eftir hluti til að minnast Vichai Srivaddhanaprabha sem var gríðarlega vinsæll í Leicester. Áður en að leiknum kemur þarf að færa allt blómahafið frá innganginum af vellinum sem mun verða gert á morgun.

Félagið hefur einnig boðað það að á laugardaginn verður sagt frá því hvernig Leciester City ætlar að minnast Vichai Srivaddhanaprabha í framtíðinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×