Viðskipti innlent

Vilja auka hlutafé um 960 milljónir til að fjármagna kaupin

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kaupin á WOW verða í forgrunni á hlutahafafundi Icelandair í lok mánaðarins.
Kaupin á WOW verða í forgrunni á hlutahafafundi Icelandair í lok mánaðarins. Vísir/vilhelm
Boðað hefur verið til hluthafafundar hjá Icelandair Group vegna fyrirhugaðra kaupa félagsins á WOW Air. Fundurinn mun fara fram þann 30. nóvember næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica og verða þrjú mál á efnisskránni, sem fela meðal annars í sér heimild til að auka hlutafé Icelandair um næstum milljarð króna að nafnvirði til að fjármagna kaupin.

Í tilkynningu sem Icelandair sendi til Kauphallarinnar í gærkvöldi er fyrirhuguð dagskrá hluthafafundarins kynnt í þremur liðum:

Sú fyrsta er tillaga um samþykki hluthafafundar á kaupum félagsins á öllu hlutafé WOW air hf. Þrátt fyrir að Icelandair hafi undirritað kaupsamning eru viðskiptin háð samþykki hluthafafundar félagsins. Eðli málsins samkvæmt verður því lögð fram tillaga á fundinum um samþykki hluthafanna.

Annað mál á dagskrá er tillaga um að stjórn Icelandair Group fái heimild til að auka hlutafé í félaginu um næstum 335 milljónir króna að nafnvirði „með áskrift nýrra hluta“ í félaginu. Útboðsgengið mun koma til með að ráðast af kaupsamningi WOW og Icelandair.

Þriðji og síðasti dagskrárliðurinn lýtur að því að veita stjórn Icelandair Group heimild til að hækka hlutafé félagsins um allt að 625 milljónir króna og selja í útboði. Stefnt er að því að hlutirnir, að hluta eða öllu leyti, verði boðnir þeim aðilum til kaups sem eru hluthafar í félaginu í dagslok 30. nóvember næstkomandi, daginn sem hluthafafundurinn fer fram.

Fallist hluthafafundurinn á tillögurnar þrjár mun hlutafjáraukningin vegna kaupa Icelandair á WOW því nema um 960 milljónum króna. Ef og þegar samþykki fundarins liggur fyrir þarf eftir sem áður samþykki Samkeppniseftirlitsins sem og niðurstöðu úr áreiðanleikakönnun til að kaupin gangi í gegn.

 

 


Tengdar fréttir

Kaupin minnka hættuna á stóráföllum

Greinendur telja að kaup Icelandair Group á WOW air minnki líkurnar á því að íslensk ferðaþjónusta verði fyrir verulegum skakkaföllum í vetur.

Með flóknari samrunamálum hér á landi

Samkvæmt reglum samkeppnisréttar getur samruni fyrirtækis á fallanda fæti, til dæmis fyrirtækis á barmi gjaldþrots, verið heimilaður þrátt fyrir að samruninn sé skaðlegur samkeppni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×