Innlent

SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar sameinast

Kjartan Kjartansson skrifar
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR (t.h.), og Garðar HIlmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (t.v.).
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR (t.h.), og Garðar HIlmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (t.v.). SFR
Meirihluti félagsmanna Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SFR stéttarfélags samþykktu sameiningu félaganna í atkvæðagreiðslu sem lauk í hádeginu. Innan við helmingur félagsmanna í báðum félögum greiddi atkvæði.

Í tilkynningu frá SFR kemur fram að meirihluti félagsmanna í báðum félögum sem greiddu atkvæði hafi verið fylgjandi sameiningunni. Þannig sögðu 57,25% félaga í SFR sem greiddu atkvæði já en 37,07% nei. Af þeim sem kusu hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar greiddu 77,2% atkvæði með sameiningunni en 17,56% gegn henni.

Alls tóku 40,75% félagsmanna í SFR og 27,34% félagsmanna í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar atkvæði.

Forysta félaganna segist fagna úrslitunum í tilkynningu. Sameinað félag verði betur í stakk búið til þess að mæta verkefnum framtíðarvinnumarkaðarins. 

„Við munum í nýju félagi standa vörð um réttindi og kjör félagsmanna og leitast við að auka þjónustuna. Þetta verða sameiginleg verkefni okkar næstu misserin og munu trúnaðarmenn sem og félagsmenn allir vera virkjaðir í því starfi,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×