Umfjöllun og viðtöl: FH - ÍBV 28-27 | FH sigraði Íslandsmeistarana í háspennuleik

Benedikt Grétarsson í Kaplakrika skrifar
Ásbjörn var frábær í kvöld
Ásbjörn var frábær í kvöld vísir/bára
FH vann ÍBV 28-27 í áttundu umferð Olísdeildar karla í handbolta þegar liðin mættust í Kaplakrika. Leikurinn var æsispennandi en markvarsla Birkis Fannars Bragasonar í lokasókn ÍBV, tryggði heimamönnum sigurinn. Ásbjörn Friðriksson var frábær í liði FH og skoraði 12 mörk.

 

Eyjamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og náðu tvívegis þriggja marka forystu. Varnarleikur gestanna var afar grimmur og minnti stundum á hina frægu „Peking-vörn“ sem landsliðið lék um árabil. Menn tóku sénsa og eyddu mikilli orku í varnarleikinn en treystu jafnframt á að félagi kæmi til hjálpar ef sóknarmaður komst framhjá fyrstu árás.

 

Ásbjörn Friðriksson skoraði fjögur mörk úr vítaköstum í fyrri hálfleik en ásamt honum, var Bjarni Ófeigur Valdimarsson mjög ákveðinn að sækja á vörnina hjá ÍBV. Hjá ÍBV bar mikið á Elliða Snæ Viðarssyni, bæði í vörn og sókn. Kári Kristján Kristjánsson lék ekkert í fyrri hálfleik en Elliði leysti stöðuna mjög vel.

 

Eyjamenn komu miklu sterkari út í seinni hálfleikinn og voru komnir með fimm marka forystu þegar 10 mínútur voru liðnar af honum.  Gestirnir héldu áfram að þjarma að FH-ingum og innkoma Kára Kristjáns á línuna var mjög sterk.

 

FH er hins vegar ekki lið sem gefst upp og hinn ólseigi Ásbjörn Friðriksson dró vagninn í mestu brekkunni fyrir liðið. FH minnkaði muninn jafnt og þétt, drifnir áfram af stórleik Ásbjarnar og þegar um 10 mínutur voru til leiksloka, var jafnt 24-24.

 

Lokakaflinn var æsispennandi og bæði lið fengu tækifæri á sigrinum. Birkir Fannar Bragason kom aftur inn í markið hjá FH og gjörsamlega lokaði búrinu á mikilvægum augnablikum. Mikilvægasta varslan kom um 10 sekúndum fyrir leikslok þegar Birkir Fannar varði dauðafæri Kára af línunni og tryggði þar með FH tvö dýrmæt stig.

 

Af hverju vann FH leikinn?

 

Seiglan í þessu FH-liði er með ólíkindum. Þetta er ekki fyrsti leikurinn í vetur þar sem úrslitin ráðast á lokasekúndum leiksins og alltaf eru það FH-ingar sem standa uppi hrósi sigrandi. Það er hæfileiki að geta klárað svona spennuleiki og þennan hæfileika má ekki vanmeta þegar kemur að því að leika um bikara í vor.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Ásbjörn Friðriksson var enn og aftur frábær í liði FH. Hann fór gjörsamlega á kostum í seinni hálfleik, skoraði þá átta mörk og stýrði sóknarleik liðsins vel. Innkoma Birkis Fannars var gríðarlega mikilvæg og Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti sinn besta leik í vetur í deildinni.

 

Erfitt er að taka einn leikmann úr liði ÍBV en heilt yfir spiluðu Eyjamenn fínan leik og mega vera svekktir að taka ekki stig úr Kaplakrika.

 

Hvað gekk illa?

 

Vörn FH var ekki sjálfri sér lík lengstum í þessum leik. Eyjamenn leystu mikið inn á línu og FH fann lítil svör. Undir lok leiksins má segja að gestunum hafi gengið afskaplega illa að nýta sín dauðafæri og það reynist ansi dýrt í slíkum spennuleik.

 

Hvað gerist næst?

 

ÍBV tekur á móti KA í Eyjum en FH á erfiðan leik að Hlíðarenda gegn Val.

 

Erlingur: Jákvæð frammistaða

 

„Heilt yfir var frammistaðan góð, sérstaklega varnarlega lengi vel í leiknum. Svo lendum við í baklás og kannski hægt að segja að menn hafi aðeins frosið. Við erum vitanlega ekki sáttir við að tapa leiknum en frammistaðan var þó nokkuð góð,“ sagði Erlingur Richardson, þjálfari ÍBV eftir tapið gegn FH.

 

Leikmenn ÍBV gerðu sig seka um að klúðra dauðafærum á ögurstundu og það reyndist dýrt. Birkir Fannar Bragason var Eyjamönnum erfiður í marki FH.

 

„Já, það er dýrt. Leikurinn var að þróast í þessa átt og hann ver bara afsakaplega vel frá okkur og við tökum ekkert frá honum og hans frammistöðu. En ef við tökum þetta saman yfir síðasta mánuðinn, þá er þetta ekkert í fyrsta skipti sem að við erum að klikka á þessum augnablikum og í þessum færum.“

 

Eyjamenn eru þrefaldir meistarar en hafa aðeins sjö stig eftir átta leiki í deildinni. Verða þjálfarar og leikmenn eitthvað varir við óánægju með þessa stigasöfnun?

 

„Við verðum þannig lagað sér ekkert varir við neikvæða umræðu en auðvitað erum við ósáttir. Við viljum vera að keppa við bestu liðin en ég verð engu að síður að horfa aðeins í frammistöðuna í kvöld og ég greindi framfarir í okkar leik. Það er það jákvæða en stigin eru bara ekki að koma í hús,“ sagði Erlingur og dreif sig í Herjólf.

 

Halldór: Vantaði allt passion lengi vel

 

„Við vorum ansi lengi í gang í dag fannst mér. Við spilum ágætlega í sókninni þó að nokkrar ákvarðanir séu rangar og flæðið dettur svolítið niður hjá okkur. Það munar bara miklu að Birkir Fannar kemur inn með hörku markvörslu og í kjölfarið koma tilfinningar og smá passion í liðið. Við spilum í einhverjar 47 mínútur nánast tilfinningalaust og það var lítill vilji í liðinu að klára leikinn,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon að leik loknum.

 

„Við pirrum okkur á hlutum sem við áttum ekkert með að pirra okkur á, spilum slaka vörn og missum menn auðveldlega framhjá okkur í stöðunni einn á einn. En það breytir því ekki að við spilum frábærlega síðustu 13 mínúturnar og klárum leikinn með frábærri vörn og markvörslu.“

 

Ásbjörn Friðriksson skoraði átta mörk í seinni hálfleik og var frábær hjá FH.

 

„Já, þeir voru að loka á ákveðna pósta hjá okkur í fyrri hálfleik en þá spilaði Bjarni Ófeigur vel, skoraði góð mörk og hélt okkur á floti. Svo breytist leikurinn í seinni hálfleik og þá er Ási gjörsamlega frábær. Hann er bara okkar leikstjórnandi og gríðarlega mikilvægur fyrir liðið og að hjálpa öðrum leikmönnum. Það kemur ró yfir liðið og við förum að gera hlutina eins og við viljum gera þá. Það skilar okkur góðum sigri,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon.

 

Ásbjörn: Er ekki að hugsa um landsliðið

 

Ásbjörn Friðriksson fór á kostum í liði FH í naumum sigri liðsins gegn ÍBV í Olísdeild karla í handbolta. Ásbjörn skoraði 12 mörk í 28-27 sigri FH og var bæði þreyttur og sáttur í leikslok.

 

„Það er ágætis ávani að klára leiki í lokin en mér fannst við hálf andlausir og ólíkir sjálfum okkur fyrstu 40 mínútur leiksins. Dóri æpir aðeins á okkur í leikhléi og þá kviknar smá líf í okkur. Þá erum við fljótir að vinna upp forskotið og stemmingin var með okkur í lokin.“

 

Þrátt fyrir að ÍBV hafi ekki gengið neitt sérlega vel, er valinn maður í hverju rúmi hjá meisturunum.

 

„Þeir eru með frábæra leikmenn í öllum stöðum. Hákon Daði og Kári Kristján koma inn af bekknum hjá þeim í dag, þannig að það segir ýmislegt um þetta lið. Við þurfum að eiga góðan leik til að leggja þá og í heildina gekk það eftir hjá okkur. Við vitum að við erum góðir síðasta korterið og sýndum það enn og aftur,“ sagði Ásbjörn.

 

En hvað er að skila þessum baráttusigrum?

 

„Við höfum verið skynsamir síðustu mínúturnar í leikjum okkar og yfirleitt spilað okkur í besta færið. Það skilar okkur þessum stigum í öllum þessum jöfnu leikjum og við þurfum að halda því áfram. Við getum samt bætt eitt og annað hjá okkur.

 

Blaðamaður heyrði ungan stuðningsmann FH kalla „Ása í landsliðið!“ á pöllunum í kvöld. Er kappinn eitthvað með hugann við þann möguleika?

 

„Nei, ég er ekki að hugsa um það. Ég er að hugsa um að spila vel fyrir FH og hef lítið hugsað um landsliðið,“ sagði Ásbjörn brosandi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira