Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Stjarnan 32-18 │Stjarnan hljóp á vegg í Hafnarfirði

Viktor Örn Guðmundsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. vísir/vilhelm
Haukar rúlluðu yfir Stjörnuna er liðin mættust í sjöttu umferð Olís-deildar kvenna. Leikið var í Schenkerhöllinni og unnu Haukar með fjórtán marka mun, 32-18.

Þær rauðklæddu höfðu öll tök á leiknum og leikur Stjörnunnar var ekki upp á marga fiska, ef einhverja.

Afhverju unnu Haukar?


Haukar unnu vegna þess að þær voru yfir á öllum sviðum handboltans, bæði í vörn og sókn. Haukar náðu upp góðu forskotu í byrjun sem jókst jafnt og þétt yfir leikinn og var þetta aldrei spurning hvar sigurinn myndi lenda.

Hverjar stóðu upp úr?

Allt Haukaliðið var frábært, og allir skiluðu góðu framlagi, þeir sem stóðu hvað mest upp úr voru Saga Sif í markinu með tæplega 50% markvörslu, í sókninni sá Ragnheiður Ragnarsdóttir aðalega um markaskorun en hún var með 8 stykki. Engin stóð upp úr hjá Stjörnunni.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá Stjörnunni að skora, sérstaklega í fyrri hálfleik. Markvarslan hjá Stjörunni var ekki upp á marga fiska, samtals 4 skot varin og markahæstu leikmenn þeirra einungis með 3 mörk.

Hvað næst?

Næstu leikir liðanna eru í bikarnum, Haukar etja kappi við HK á meðan Stjarnan fer í árbæin og leikur við Fylki, næstu leikir í deild hinsvegar Haukar – HK og Stjarnan - ÍBV

Elías leggur línurnar í kvöld.vísir/vilhelm
Elías: Var búinn að undirbúa liðið vel

„Nei satt best að segja þá átti ég ekki von á því,“ sagði Elías Már Halldórsson þjálfari Hauka þegar hann var spurður hvort hann átti von á svona auðveldum leik.

„Ég var búinn að undirbúa liðið mjög vel og við tókum þennan leik alvarlega, ég var stressaður fyrir þennan leik en mér fannst við spila mjög vel í kvöld, varnaleikurinn frábær og góð rútína í sóknarleiknum, og bara gott og  gaman fyrir þjálfarann að geta gefið öllum leikmönnum mínútur.”

„Við spiluðum bara mjög vel og það var bara ákveðin gæðamunur á liðinum, ég myndi segja að það hafi verið markvarsla og varnaleikum sem að skóp þetta,” sagði Elías aðspurður hvað skóp þennan sigur í kvöld.

Næsti leikur Hauka er gegn HK í bæði deild og bikar. „Það verður bara erfitt, HK er gott lið og öll lið að vinna hvort annað í þessari deild þannig þetta verður krefjandi og skemmtilegt verkefni," sagði Elías glaður í lokinn.

Basti á hliðarlínuni í kvöld.vísir/vilhelm
Sebastian: Frammistaðan skelfileg frá A-Ö

„Ég get sagt helling eftir þennan leik en ég nenni ekki að eyða orðum í það, frammistaðan var bara skelfilega frá A-Ö,“ sagði Sebastian Alexandersson ómyrkur í máli eftir frammistöðu kvöldsins.

„Það fór allt úrskeiðis í kvöld, bara allt. Það var ekkert að frétta og ég bjóst satt best að segja ekki við svona frammistöðu, við mætum ekki til leiks og vorum bara undir í öllu, varnarlega og sóknarlega," sagði Basti.

Frammistaðan var til skammar og verða Stjörnustúlkur svo sannarlega að skerpa á öllum hlutum handboltans ef þær ætla ná í úrslit í næstu verkefnum.

„Ef við spilum svona gegn Fylki í bikarnum þá fer bara illa, sama með ÍBV, svo einfalt er það.”

Sagði Sebastian í lokinn.

Þórhildur Braga Þórðardóttir skýtur að marki Stjörnunnar.vísir/vilhelm
Ragnheiður Ragnarsdóttir: Sýndum sterka liðsheild

„Ég bjóst kannski ekki við svona auðveldum leik, en við sýndum mjög sterka liðsheild og héldum henni út allan leikinn,” sagði hornamaðurinn Ragheiður Ragnarsdóttir um leik Hauka í kvöld.

„Ég var ánægðust með tempóið, við keyrðum það mikið upp í kvöld, bæði fyrsta og annað tempó og vorum bara með yfirhöndina allan tímann.”

Ragnheiður lék frábærlega í kvöld og var markahæst í kvöld með 7 mörk úr 8 skotum. Henni lýst vel á næstu verkefni gegn HK í deild og bikar.

„Mér lýst mjög vel á það verkefni, það gekk vel á móti þeim í deildinni svo að ég býst við því að upplegið verði svipað," sagði Ragnheiður í samtali við Vísi eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira