Skoðun

Norræn samvinna

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Norðurlöndin eru okkur Íslendingum mjög verðmæt. Menning okkar og tungumál eru svipuð og auðveldara er að sækja sér nám og vinnu á Norðurlöndunum samanborið við önnur svæði. Samanlagt eru þau okkar stærsta einstaka „viðskiptaland“ sé litið til vöru og þjónustu. Að því þarf að hlúa.

Norrænt samstarf skiptir okkur meira máli nú en nokkurn tíma fyrr, ekki síst þegar svo mikill órói er á alþjóðavettvangi. Þá þéttum við Norðurlöndin samstarf okkar inn á við og gerum okkar besta til að hafa góð áhrif út í heim. Sama má segja um samtal er varðar löggjafarstarfsemi á vettvangi Evrópusambandsins.

Norðurlöndin geta þannig vakið athygli á sérstöðu sinni á hvaða vettvangi sem er. Til að mynda er varðar matvælaframleiðslu og öryggi matvæla. Í mínum huga stendur Ísland öðrum þjóðum framar hvað varðar framleiðslu á heilnæmum matvælum, sjávar- og landbúnaðarafurðum. Með heilnæmum matvælum er átt við hreinar afurðir í landi þar sem lyfjanotkun er með því allra minnsta sem þekkist í heiminum.

Það er nefnilega ekki sjálfgefið að matvæli eigi að flæða frjálst á milli landa á EES-svæðinu eins og hverjar aðrar vörur. Ekki í þeim tilfellum þegar verja þarf lýðheilsu gegn matvælum sem geta haft skaðleg áhrif á lífríkið hér á landi, en ekki á meginlandi Evrópu. Ísland býr við þá sérstöðu, umfram önnur lönd, að auðveldara er að verjast sjúkdómum, forðast sýklalyfjaónæmi og draga úr útbreiðslu slíkra baktería vegna þess að við erum eyja með hreina búfjárstofna. Slíkt er eftirsóknarvert.

Sjálfbærni

Norðurlandaráð er dæmi um vettvang sem getur sett mál á dagskrá sem varða okkar hagsmuni. Ísland tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni á næsta ári og var áætlunin kynnt í gær á Norðurlandaráðsþinginu sem nú fer fram í Ósló. Við erum einfaldlega komin á þann stað að allt sem við gerum þarf að þjóna því markmiði að tryggja sjálfbærni og stemma stigu við loftslagsbreytingum. Þar með talið sjálfbærni matvæla. Margt smátt gerir eitt stórt, og formennskuverkefnin eru hluti af því.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×