Viðskipti innlent

Fall Primera Air kemur niður á afkomu Arion banka

Kjartan Kjartansson skrifar
Verulega hefur dregið úr hagnaði og arðsemi Arion banka á fyrstu níu mánuðum þessa árs, borið saman við sama tímabil í fyrra.
Verulega hefur dregið úr hagnaði og arðsemi Arion banka á fyrstu níu mánuðum þessa árs, borið saman við sama tímabil í fyrra. Vísir/Eyþór
Afkoma Arion banka á þriðja ársfjórðungi var undir væntingum og er það meðal annars rakið til gjaldþrots flugfélagsins Primera Air. Hagnaður samstæðu bankans nam engu að síður 1,1 milljarði króna á tímabilinu og 6,2 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins.

Í afkomutilkynningu bankans sem send var út í dag kemur fram að arðsemi eigin fjár hans hafi verið 2,3% á þriðja ársfjórðungi. Á sama tímabili í fyrra var arðsemin neikvæð um 0,2% og skilaði bankinn hundrað milljón króna tapi.

Niðurfærslur sem tengjast Primera Air eru sagðar hafa áhrif á afkomu fjórðungsins og fyrstu níu mánuði ársins. Bankinn sendi frá sér afkomuviðvörun í byrjun október þar sem vísað var til ófyrirséðra atburða sem kæmu niður á afkomunni. Fyrstu níu mánuði þessa árs skilaði Arion banki 4,2 milljörðum minni hagnaði en á sama tíma í fyrra. Arðsemin það sem af er ári er 3,9% borið saman við 6,3% á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs.

Heildareignir námu 1.219,5 milljörðum króna í lok september 2018 samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 199,3 milljörðum króna, samanborið við 225,6 milljarða króna í árslok 2017. Arion banki greiddi tíu milljarða króna í arð í lok september 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans var 21,7% í lok september en var 24,0% í árslok 2017. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,6% í lok september, samanborið við 23.6% í árslok 2017.


Tengdar fréttir

Forstjóri Primera kaupir ferðaskrifstofur

Félag í eigu forstjóra Primera Air hefur keypt allar ferðaskrifstofur Primera Air samstæðunnar og tekið yfir skuldir við Arion banka. Primera Air sótti um greiðslustöðvun í byrjun þessa mánaðar.

Mikið tap hjá Arion vegna Primera Air

Arion banki hefur sent frá sér afkomuviðvörun sem samkvæmt heimildum Vísis má rekja til gjaldþrots Primera Air. Tilkynnt var í gær að flugfélagið myndi fara í greiðslustöðvun í dag.

Lítið sem ekkert í þrotabúi Primera

Tæplega 4,6 milljónir króna og ein bifreið hafa fundist upp í tæplega 17 milljarða króna kröfur í þrotabú flugfélagsins Primera air að sögn skiptastjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×