Erlent

Ráða fyrrverandi varaforsætisráðherra

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Nick Clegg, fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands,
Nick Clegg, fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands, AFP
Samfélagsmiðlarisinn Facebook tilkynnti í gær um að Nick Clegg, fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands og formaður Frjálslyndra demókrata, hefði verið ráðinn yfirmaður heimsmála- og samskiptateymis fyrirtækisins. Líklega mun Clegg hafa nóg á sinni könnu, enda hafa hneykslismál sem tengjast meðferð persónulegra upplýsinga, falsfréttum og afskiptum af kosningum gert stjórnendum Facebook lífið leitt að undanförnu.

Clegg var varaforsætisráðherra í samsteypustjórn Frjálslyndra demókrata og Íhaldsflokksins frá 2010 til 2015 undir forsæti Davids Cameron. Hann sagði af sér formennsku í flokknum eftir kosningar 2015 þegar flokkur hans tapaði 49 þingsætum og fékk einungis átta.

Að því er kom fram í umfjöllun Reuters um ráðninguna í gær er Clegg háttsettasti evrópski stjórnmálamaðurinn til þess að taka nokkurn tímann við forystuhlutverki í tæknifyrirtæki í hinum svokallaða Kísildal í Kaliforníu.

Facebook sagði að forstjórinn Mark Zuckerberg og framkvæmdastjórinn Sheryl Sandberg hefðu bæði verið viðriðin ráðningarferlið. Viðræður við Clegg hefðu hafist í maí.

„Fyrirtæki okkar er á mikilvægri vegferð. Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru alvarlegar og augljósar. Nú sem aldrei fyrr þurfum við á nýjum sjónarmiðum að halda,“ sagði í tilkynningunni.

Clegg sagði í yfirlýsingu á Face­book, skiljanlega, að hann vonaðist til þess að reynsla hans kæmi að góðum notum í þessu nýja hlutverki. „Á starfsævi minni í störfum fyrir almenning hef ég aldrei skorast undan erfiðum og umdeildum verkefnum og því hlutverki að miðla upplýsingum um gang mála til almennings,“ sagði Clegg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×