Erlent

Tugir fórust í lestarslysi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
50 hið minnsta fórust í slysinu og 200 særðust.
50 hið minnsta fórust í slysinu og 200 særðust. AP/Prabhjot Gill
Að minnsta kosti 50 fórust og 200 slösuðust þegar lest skall á hópi fólks nærri Amritsar í indverska ríkinu Punjab. BBC greindi frá þessu og hafði eftir lögreglu og sjónarvottum á svæðinu. Fórnarlömbin stóðu nærri lestarteinunum og voru að fylgjast með fagnaðarlátum vegna dusshera, hátíðar í hindúasið.

Þar sáu fórnarlömb líkneski djöflakonungsins Ravana brenna. Líkneskið var fullt af litlum flugeldum og heyrðu viðstaddir því ekki í lestinni nálgast.

Samkvæmt BBC höfðu skipuleggjendur hátíðarhaldanna beint þeim tilmælum til viðstaddra að bakka örlítið frá líkneskinu, í átt að lestarteinunum, fáeinum andartökum áður en slysið varð.

Amarinder Singh, æðsti ráðherra Punjab-ríkis, sagði að slysið væri gríðarlegur harmleikur. Yfirvöld á svæðinu gerðu nú allt sem þau gætu til þess að aðstoða þá sem slösuðust. „Ég hef beint þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að hinir slösuðu fái bestu meðferð sem kostur er á.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×