Erlent

Bandaríkin munu rifta kjarnorkusamkomulagi við Rússa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump hyggst rifta kjarnorkusamkomulagi sem Bandaríkin gerðu við Rússa árið 1987.
Trump hyggst rifta kjarnorkusamkomulagi sem Bandaríkin gerðu við Rússa árið 1987. Vísir/AP
Bandaríkin munu rifta kjarnorkusamkomulagi við Rússland. Þetta staðfesti Donald Trump Bandaríkjaforseti við fjölmiðla vestanhafs í dag.

Samkomulagið, sem snýr að kjarnorkuafvopnun og var ætlað að útrýma meðaldrægum loftskeytum búnum kjarnaoddum, var undirritað árið 1987 af Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseta, og Mikhail Gorbachev, þáverandi aðalritara Kommúnistaflokks Sovétríkjanna.

Ástæðuna sagði Trump vera að Rússar hafi brotið samkomulagið þegar þeir skutu skeytum sem samkomulagið nær til í tilraunaskyni. Þá sagði Trump að Bandaríkin myndu ekki láta Rússa komast upp með að nota slík vopn meðan Bandaríkjunum er bannað að gera slíkt hið sama.

Trump lét þessi orð falla þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir kosningafund í Nevada-fylki í Bandaríkjunum. Forsetinn furðaði sig þá á því hvers vegna forveri hans í starfi, Barack Obama, hafi haldið samkomulaginu í heiðri.

„Ég skil ekki hvers vegna Obama endursamdi ekki eða rifti samkomulaginu. Þeir [Rússar] hafa vanvirt það í fleiri ár.“

Rússar neita staðfastlega að hafa nokkurn tíma brotið gegn samkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×