Erlent

22 látnir eftir lestarslys í Taívan

Sylvía Hall skrifar
Að minnsta kosti 22 eru látnir og 170 slasaðir eftir að farþegalest fór út af sporinu í norðaustur Taívan í dag. Alls voru 366 farþegar í lestinni sem ferðaðist milli Taipei og Taitung í austurhluta landsins þegar allir átta vagnar lestarinnar fóru út af sporinu. Talið er að einn bandarískur ríkisborgari hafi dáið í slysinu.

Lestin var um 70 kílómetrum frá Tapei þegar slysið varð. Yfirvöld rannsaka nú slysið en fréttamiðlar í landinu segja að tugir manna gætu enn setið fastir um borð í lestarvögnunum. Þá hafa þeir farþegar sem sitja fastir um borð reynt að brjóta sér leið út um rúður að sögn vitna.



Rekstraraðilar tjáðu sig um málið á blaðamannafundi í dag og sögðu lestina hafa verið í góðu ástandi fyrir slysið. Hún hafði verið í notkun í sex ár.

Viðbragðsaðilar vinna nú að því að aðstoða hina slösuðu og samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneyti landsins hafa 120 hermenn verið sendir á vettvang. Tildrög slyssins eru ókunn en vitni segjast hafa heyrt háan hvell og séð neista og reyk stíga upp frá lestinni.

Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×