Erlent

Bandaríkjastjórn íhugar að þurrka út skilgreininguna um transfólk

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ríkisstjórn Donalds Trump er nú með það til skoðunar að taka til baka ýmsar breytingar á réttindum þeirra sem vilja fá að skilgreina kyn sitt öðruvísi en líffræðilegt kyn þeirra.
Ríkisstjórn Donalds Trump er nú með það til skoðunar að taka til baka ýmsar breytingar á réttindum þeirra sem vilja fá að skilgreina kyn sitt öðruvísi en líffræðilegt kyn þeirra. Vísir/Getty
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta skoðar nú að breyta því á hvaða vegu kyn einstaklinga skilgreinist. Endurskilgreiningin myndi fela í sér að allir Bandaríkjamenn skilgreindust sem annað hvort karlar eða konur, í samræmi við líffræðilegt kyn þeirra við fæðingu.

Breytingin myndi hafa víðtæk áhrif á fjölda manns, en talið er að um ein og hálf milljón Bandaríkjamanna kjósi að skilgreina sig sem annað kyn en líffræðilegt kyn þeirra gefur til kynna.

Samkvæmt minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna, sem New York Times hefur undir höndum, mun lagalegri skilgreiningu kyns verða breytt á þann veg að allir Bandaríkjamenn teljist til þess kyns sem kynfæri þeirra gefa til kynna við fæðingu. Ekki verði hægt að breyta þeirri skilgreiningu nema með óyggjandi niðurstöðum erfðafræðiprófana.

Í minnisblaðinu, sem skrifað var í vor, er kyn skilgreint sem „staða einstaklings sem annað hvort karl eða kona sem byggist á óbreytilegum líffræðilegum eiginleikum, greinanlegum fyrir eða við fæðingu.“

Á síðasta ári tjáði Bandaríkjaforseti sig um málefni transfólks í hernum, en þá tísti hann því að ekki megi leggja „gríðarlegan lækniskostnað og truflun“ sem transfólk hefði í för með sér á herðar hernum. Þá staðfesti Trump bannið fyrr á þessu ári.

Sjá einnig: Trump: Transfólk má ekki gegna herþjónustu

Á undanförnum árum hafa ýmsar breytingar orðið á réttindum þeirra sem skilgreina sig sem annað en sitt líffræðilega kyn, en það var í stjórnartíð Baracks Obama. Þá var transfólki gert mun auðveldara að skilgreina eigið kyn.

Stefna stjórnar Obama vakti upp miklar og heitar umræður í Bandaríkjunum um rétt transfólks á sviðum þar sem litið var á kyn sem val á milli tveggja kosta, það er karlkyns og kvenkyns. Meðal þess sem bar hæst í þeirri umræðu var réttur fólks til þess að nota almenningssalerni og búningsklefa sem samræmdist þeirra skilgreinda kyni.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×