Erlent

Segir stjórnvöld Sádi Arabíu ekki vita um lík Khashoggis

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Adel Al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi Arabíu.
Adel Al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi Arabíu.
Utanríkisráðherra Sádi Arabíu, Adel Al-Jubeir, segir að sádiarabísk stjórnvöld ekki vita hvar lík blaðamannsins Jamal Khashoggi er. Þá segir hann einstaklingana sem urðu sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi að bana hafi gert það að eigin frumkvæði og án vitundar og leyfis stjórnvalda.

Utanríkisráðherrann sat í dag fyrir svörum í einkaviðtali við bandarísku fréttastöðina Fox News. Í viðtalinu vottaði hann fjölskyldu Khashoggi samúð sína, en Khashoggi var fyrir þremur vikum myrtur á ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbul í Tyrklandi.

Í viðtalinu sagði ráðherrann að upphaflega hafi stjórnvöld í Sádi Arabíu talið að Khashoggi hafi yfirgefið ræðismannsskrifstofuna heill á húfi, en rannsókn hafi leitt í ljós að átök hafi brotist út inni á skrifstofunni, með þeim afleiðingum að Khashoggi lést.

Þá sagði Al-Jubeir að einstaklingarnir sem komu að dauða Khashoggi séu ekki nátengdir krónprinsi Sádi Arabíu, Mohammed bin Salman. Bætti ráðherrann því við að Sádar væru um þessar mundir að rannsaka málið og að einstaklingunum 18 sem taldir eru bera ábyrgð á dauða blaðamannsins verði refsað.

Ráðherrann gat ekki komið fram með neinar nýjar upplýsingar hvað varðar rannsókn Sáda á málinu, sem hann sagði enn vera á frumstigi. Einnig sagði hann rannsakendur ekki vita nákvæmlega hvernig dauða Khashoggi bar að eða hvar líkamsleifar hans eru niður komnar.

„Þegar maður er með aðstæður sem þessar verða upplýsingarnar sem maður sendir frá sér að vera sem nákvæmastar,“ sagði Al-Jubeir.

Hér að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 um málið.




Tengdar fréttir

Merkel krefur Sádi Arabíu um nánari skýringar

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir útskýringar sádiarabískra stjórnvalda á andláti blaðamannsins Jamals Khashoggi vera ófullnægjandi. Hún gerir þá kröfu að yfirvöld í Sádí geri hreint fyrir sínum dyrum og upplýsi á nákvæmari hátt um hvernig andlát Khashoggi bar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×