Fótbolti

Rooney skaut DC í úrslitakeppnina og Zlatan þarf stig í lokaumferðinni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rooney hefur gjörbylt gengi DC United
Rooney hefur gjörbylt gengi DC United vísir/getty
Það var heil umferð á dagskrá MLS deildarinnar í Bandaríkjunum í gær þar sem um var að ræða næstsíðustu umferð deildarkeppninnar.

Það er óhætt að segja að skærustu stjörnur deildarinnar hafi staðið fyrir sínu og verða þeir Wayne Rooney og Zlatan Ibrahimovic að öllum líkindum báðir í úrslitakeppninni með sínum liðum, DC United og LA Galaxy.

DC United tryggði sæti sitt í úrslitakeppni með 3-1 sigri á New York City þar sem Rooney skoraði tvö mörk. Hreint ótrúlegur viðsnúningur hjá liðinu síðan að Rooney gekk í raðir þess í lok júní en þá var liðið í neðsta sæti deildarinnar og ekkert útlit fyrir að sæti í úrslitakeppni væri raunhæfur möguleiki.

Óhætt er að segja að Rooney hafi tekið MLS deildina með trompi en þessi 32 ára gamli markahæsti leikmaður í sögu Man Utd og enska landsliðsins hefur skorað 10 mörk og lagt upp 7 í 18 leikjum með DC United.

Fyrrum liðsfélagi Rooney hjá Man Utd er sömuleiðis að gera góða hluti í MLS en sænska goðsögnin Zlatan Ibrahimovic skoraði eitt og lagði upp eitt þegar LA Galaxy vann mikilvægan 3-1 sigur á Minnesota United.

Zlatan og félagar verða því með eigin örlög í höndum sér í lokaumferðinni þar sem eitt stig gegn Houston Dynamo tryggir þeim farseðil í úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×