Körfubolti

LeBron James: Ég veit hvað ég er búinn að koma mér út í

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Trust the process segir LeBron
Trust the process segir LeBron vísir/getty
Los Angeles Lakers er án sigurs eftir þrjá leiki í NBA deildinni og það þrátt fyrir að vera með líklega besta körfuboltamann sögunnar í sínum röðum þar sem LeBron James gekk til liðs við félagið í sumar. 

James er þó ekki farinn að örvænta og sagði í samtali við fjölmiðla eftir leik að hann gerði sér grein fyrir því að það væri þolinmæðisvinna framundan.

„Ég veit hvað ég er búinn að koma mér í. Við erum að vinna í ákveðni ferli (e. process). Ég skil það og það mun enda vel.“

„Ég kom ekki hingað og bjóst við að við myndum verða sjóðandi heitir frá fyrsta leik. Þetta er ákveðið ferli sem mun taka tíma og ég geri mér grein fyrir því,“ segir James.

Lakers fór illa að ráði sínu á lokamínútu framlengingar í nótt og tapaði að lokum með minnsta mun eftir að James hafði tryggt þeim framlengingu með þriggja stiga körfu á ögurstundu.

Hann var hins vegar ekki jafn öflugur á lokakafla framlengingarinnar. James átti stóran þátt í að Lakers glopraði niður sex stiga forystu þar sem hann klúðraði til að mynda tveimur vítaskotum á ögurstundu.

„Við fengum okkar tækifæri. Við vorum sex stigum yfir þegar það var minna en ein mínúta eftir en við náðum ekki að stöðva þá í vörninni. Ég klúðraði tveimur vítaskotum og það er óásættanlegt.“

Lakers mætir Phoenix Suns á morgun og ætti að eiga góðan möguleika á sigri þar.

„Við munum halda áfram að bæta okkur. Ég er ánægður með í hvaða átt við erum stefna. Það er augljóslega ekki að skila sigrum eins og er en það kemur með tímanum,“ segir James.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×