Handbolti

Seinni bylgjan: ÍBV getur orðið Íslandsmeistari með svona markvörslu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport
ÍBV varð fyrsta liðið til þess að sigra Fram í Olísdeild kvenna þegar liðin mættust í Safamýrinni um helgina.

Guðný Jenný Ásmundsdóttir átti frábæran leik í marki ÍBV með 20 skot varin og 47 prósenta markvörslu.

„Ef ÍBV ætlar að verða Íslandsmeistari í ár þá þurfa þær þetta frá Guðný Jenný því þetta geta þær haft fram fyrir Fram-liðið,“ sagði Tómas Þór Þórðarson, þáttastjórnandi Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport þegar farið var yfir leikinn í þætti gærkvöldsins.

„Ekki spurning. Ef Guðný heldur áfram að verja svona er það gríðarlega öflugt,“ tók Gunnar Berg Viktorsson undir. „Hún er ekki búin að vera upp á sitt besta en þegar hún er svona góð þá er hún alveg ógeðslega góð.“

Greta Kavaliuskaite var einnig frábær í liði ÍBV og skoraði níu mörk.

„Hún er ógeðslega góð í fótunum og tekur góðar ákvarðanir,“ sagði Logi Geirsson. „Hún er frábær leikmaður og er fjölhæf.“

Fram er þó enn á toppi deildarinnar en Valskonur náðu að saxa forskot þeirra niður í eitt stig með sigri á Stjörnunni. Stjarnan er aðeins með þrjú stig úr sex leikjum.

„Það sem er að hjá Stjörnunni er sóknarleikurinn og þær ná ekki upp hraðaupphlaupum,“ sagði Logi.

Umræðuna um báða leikina má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×