Lífið

Harkaleg slagsmál Who-liða drógu gítarleikarann nærri til dauða

Birgir Olgeirsson skrifar
Roger Daltrey og Pete Townshend á sviði.
Roger Daltrey og Pete Townshend á sviði. Vísir/Getty
Roger Daltrey, söngvari bresku rokksveitarinnar The Who, rifjar upp slagsmál milli hans og gítarleikara sveitarinnar, Pete Townshend, í nýrri ævisögu sem nefnist, Thanks a Lot Mr. Kibblewhite.

Daltrey segir frá því að hann hefði farið nærri því að verða Townshend að bana sem hafði sveiflað ellefu kíló þungum Les Paul-rafmagnsgítar framhjá höfði Daltrey.

Þetta var árið 1973 þegar sveitin var að undirbúa sig fyrir Quadrophenia-tónleikatúrinn. Útgáfufyrirtæki þeirra, MCA, neyddi þá til að taka upp kynningarmyndband til að vekja athygli á túrnum.

 

„Gerir það sem þér er fjandans sagt að gera“

Daltrey var ekki hrifinn af seinagangi kvikmyndagerðarmannanna. Honum fannst þeir vera að hafa dýrmætan tíma af meðlimum sveitarinnar sem hefðu getað nýtt hann í hljóðveri eða við æfingar.

Hann lét óánægju sína í ljós sem varð til þess að Townshend missti stjórn á skapi sínu.

„Þú gerir það sem þér er fjandans sagt að gera,“ á Townshend að hafa öskrað á Daltrey.

Hann segir rótara sveitarinnar hafa stokkið til og haldið aftur af sér því þeir áttu að vera meðvitaðir um að Daltrey myndi gera út af við Townshend ef það kæmi til handalögmála.

Roger Daltrey og Pete Townshend árið 1978.Vísir/Getty

Hélt að hann hefði drepið Townshend

„Látið hann lausan. Ég drep þetta litla gerpi,“ hefur Daltrey eftir Townsend. Rótararnir slepptu Daltrey og upphófust þá slagsmál sem Townshend má þakka fyrir að hafa sloppið lifandi frá.

„Áður en ég vissi af hafði hann sveiflað ellefu kílóa Les Paul gítar að mér. Hann fór rétt framhjá eyranu mínu og straukst við öxlina. Þessi sveifla var ansi nærri því að enda feril sveitarinnar. Ég hafði ekki svarað fyrir mig, en var að verða reiður. Hann kallaði mig lítið gerpi. Svo kom loksins að því, eftir að hafa verið friðarsinni í tíu ár, þegar hann hafði sveiflað hnefa í átt að mér, svaraði ég með upphandarhöggi beint í kjálkann.“

Daltrey segir Townshend hafa kastast aftur á bak og skollið með hnakkann í gólfið.

„Ég hélt ég hefði drepið hann.“

 

Hélt í hönd hans í sjúkrabílnum

Daltrey sat í sjúkrabílnum sem flutti Townshend á sjúkrahús og segist hafa haldið í höndina á honum allan tímann.

Townshend höfuðkúpubrotnaði en þeir fengu þær fregnir á sjúkrahúsinu að hann myndi ná fullum bata.

Daltrey segist hafa verið samviskubit allan tímann, þrátt fyrir að hann hefði einungis verið að svara fyrir sig.

„Til allrar hamingju lifði hann af en alla tíð síðan hefur hann kennt mér um skallablettinn á höfði sínu. Ég held að hann trúi því enn að ég hafi verið sá sem stofnaði til slagsmálanna. Ég man þetta hins vegar svona.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×