Erlent

Lík barna í fjöldagröfum á Írlandi verða grafin upp

Kjartan Kjartansson skrifar
Sérfræðingar leita að líkum neðanjarðar með radar við heimilið í Tuam.
Sérfræðingar leita að líkum neðanjarðar með radar við heimilið í Tuam. Vísir/EPA
Írsk stjórnvöld ætla að láta grafa upp líkamsleifar barna sem voru grafin í ómerktum fjöldagröfum við fyrrum heimili fyrir mæður og börn. Ætlunin er að bera kennsl á börnin og grafa lík þeirra aftur.

Írar voru slegnir óhug í fyrra þegar í ljós kom að verulegt magn af líkamsleifum úr börnum hefði fundist grafin við heimili sem kaþólskar nunnur ráku fyrir ógiftar mæður og börn þeirra í Tuam í Galway-sýslu frá 1925 til 1961. Barnadauði var tíður á heimilinu.

Líkamsleifarnar fundust í kjölfar þess að áhugamaður um sagnfræði hóf að grennslast fyrir um afdrif hátt í áttahundruð barna sem létust á heimilinu. Hann fann dánarvottorð fyrir 796 börn en engin gögn voru til um að þau hefðu verið grafin.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að börnin hafi dáið af náttúrulegum orsökum eða af völdum vannæringar. Meðferðin á líkum þeirra hefur aftur á móti vakið hneykslun.

Írska ríkisstjórnin hóf opnibera rannsókn árið 2015. Hún leiddi í ljós verulegt magn af líkamsleifum í að minnsta kosti sautján neðanjarðarhvelfingum. Rannsóknir benda til þess að meðal barna sem voru grafin þar hafi verið fyrirburar en einnig börn allt að þriggja ára gömul.

Heimili sem þetta voru rekin víða um Írland á tíma þegar kynlíf utan hjónabands var forboðið í landinu. Konum sem eignuðust börn utan hjónabands var í mörgum tilfellum útskúfað úr fjölskyldum og komið fyrir á heimilum sem þessum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×