Innlent

Mörk leyfilegs vínanda í blóði ökumanns verði lækkuð

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir breytingum á umferðarlögum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir breytingum á umferðarlögum. Fréttablaðið/Ernir
Mörk leyfilegs magns vínanda í blóði ökumanna lækka úr 0,5 í 0,2 prómill, nái frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöng- og sveitarstjórnarráðherra, til nýrra umferðarlaga fram að ganga á Alþingi.

Sigurður Ingi mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag en hann sagði að um væri að ræða löngu tímabæra endurskoðun á núgildandi umferðarlögum. Frumvarpið er afrakstur víðtæks samráðs við hagsmunaaðila og almenning.

Eitt helsta nýmæli frumvarpsins er að mörk leyfilegs magns vínanda í blóði ökumanna verða lækkuð úr 0,5 í 0,2 prómill. Í ræðu sinni sagði Sigurður að með breytingunni væri verið að senda skýr skilaboð til ökumanna og þjóðfélagsins í heild að akstur og áfengisdrykkja fara með engu móti saman.

Ekki verður þó farið fram á ökuleyfissviptingu ef magn vínanda í blóði ökumanns er á milli 0,2 og 0.5 prómill heldur verður um að ræða sekt.

Nái frumvarpið fram að ganga verður hjálmaskylda barna lögbundin, regla um forgangsakstur innri hrings í hringtorgum lögfest auk þess sem kafli um hjólreiðar hefur verið tekinn til heildarendurskoðunar.

Sigurður sagði í ræðu sinni að allt of margir hafi látið lífið eða örkumlast í umferðinni og að nýju umferðarlögin væru til þess fallin að vernda líf og heilsu vegfarenda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×