Erlent

Ferkantaður ísjaki á Suðurskautslandinu vekur athygli

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að jakinn sé um 40 metrar á lengd en 1,5 til þrír kílómetrar á breidd.
Áætlað er að jakinn sé um 40 metrar á lengd en 1,5 til þrír kílómetrar á breidd. Mynd/NASA
Loftmyndir úr nýjasta útsýnisflugi Bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA yfir Suðurskautslandið hafa vakið talsverða athygli. Í fluginu náðust myndir af ísjaka með svo beinum köntum að það lítur út fyrir að hann hafi verið skorinn með hníf og með aðstoð vinkils.

„Það sem gerir þetta svo sérstakt er að þetta lítur út eins og ferkantur,“ segir Kelly Brunt hjá NASA.

BBC  hefur eftir Brunt að þessir jöfnu kantar og flatt yfirborðið bendi til að jakinn hafi nýverið losnað og eigi eftir að brotna niður í smærri einingar. Áætlað er að jakinn sé um 40 metrar á breidd en 1,5 til þrír kílómetrar á lengd. Eins og með aðra ísjaka þá eru einungis um 10 prósent jakans ofan vatnsyfirborðsins.

Jakinn losnaði frá Larsen C-breiðunni á austurhluta Suðurskautslandsins þann 16. október. Að sögn Twila Moon hjá bandaríska National Snow and Ice Data Center eru jakar sem þessir ekki eins óalgengir og margir kunna að halda. Ís sé þannig gerður að hann brotnar á svipaðan máta á gler sem kann að leiða til myndunar ísjaka sem þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×