Tottenham í vandræðum og jafntefli hjá Henry

Lloris fær rauða spjaldið í kvöld.
Lloris fær rauða spjaldið í kvöld. vísir/getty
Tottenham er einungis með eitt stig eftir fyrstu þrjá leikina í B-riðli Meistaradeildar Evrópu eftir 2-2 jafntefli við PSV í kvöld.

Heimamenn í PSV komust yfir á 30. mínútu með marki Hirving Lozano eftir hörmuleg mistök Toby Alderweireld í vörn Tottenham en níu mínútum síðar var staðan orðin jöfn.

Eftir laglega sendingu frá Christian Eriksen kom Kieran Trippier boltanum fyrir markið þar sem Brasilíu-maðurinn Lucas Moura kom á fullri ferð og kláraði færið.

Allt jafnt í hálfleik en skalla mark Harry Kane eftir sendingu Eriksen á 55. mínútu virtist ætla að vera sigurmarkið. Það varð svo ekki raunin.

Áður nefndur Lozano var að sleppa einn í gegn, Hugo Lloris kom askvaðandi út úr markinu og fór í Lozano. Ekkert annað í stöðunni en að reka Lloris af velli en spjaldið kom tíu mínútum fyrir leikslok.

Það var svo tveimur mínútum fyrir leikslok er PSV jafnaði metin. Eftir aukaspyrnu barst boltinn á fyrirliðann Luuk de Jong sem kláraði færið meistaralega og allt jafnt 2-2.

Bæði lið eru því einungis með eitt stig í fyrstu þremur leikjunum en á toppnum eru Barcelona og Inter með sex stig. Þau mætast síðar í kvöld.

Í hinum leik dagsins sem er lokið gerðu Club Brugge og Mónakó 1-1 jafntefli en þetta var fyrsti leikur Thierry Henry sem stjóri í Meistaradeildinni en Frakkinn tók við Mónakó á dögunum.

Bæði lið eru  með eitt stig en Dortmund og Atletico Madrid eru með sex stig er þrjár umferðir eru eftir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira