Erlent

Norrænar þjóðir svara Hvíta húsinu: „Eitthvað erum við að gera rétt“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist ekki hrifinn af Norðurlöndunum.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist ekki hrifinn af Norðurlöndunum. AP/Manuel Balce Ceneta
Sendiráð Norrænna ríkja í Bandaríkjunum sendu Donald Trump tóninn í gærkvöldi og í dag eftir að forsetinn sendi frá sér skjal þar sem hann gagnrýndi norrænu ríkin og „sósíalískar“ stefnur þeirra. Skjalið snýr að því sem Trump kallar hættuleg stefnumál Demókrataflokksins og sósíalisma.



Þar segir meðal annars: „Rannsóknir benda til að jafnvel norrænu ríkin, sem oft er bent á sem dæmi um vel heppnaðan sósíalisma, hafi orðið fyrir skaða vegna notkunar þeirra á sósíalískum stefnum. Lífsgæði í norrænum ríkjum eru minnst fimmtán prósentum lægri en í Bandaríkjunum, þrátt fyrir alla „ókeypis“ þjónustu hins opinbera. Ef Bandaríkin hefðu tekið upp sömu stefnumál og þessi ríki á áttunda áratugnum, væri raunveruleg landsframleiðsla okkar nærri því tuttugu prósentum minni en í dag.“

Þar er sömuleiðis talað um hve hærri skattbyrði einstakra heimila væri ef Demókratar kæmust upp með að taka upp svipuð stefnumál og norrænu ríkin.

Í samtali við Ríkisútvarpið sagði Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Utanríkisráðuneytisins, að viðbrögðin hefðu verið samhæfð.

Í skilaboðum flestra sendiráðanna vegna þessa skjals kemur fram að ríkin séu ekki sósíalistaríki. Þess í stað séu þau velferðarríki með opnum efnahögum. Kåre R. Aas, sendiherra Noregs í Bandaríkjunum, segir öllum norrænum ríkjum vegna vel.

„Eitthvað erum við að gera rétt.“

Sendiráð Íslands benti á að Íslendingar séu fjórða hamingjusamasta þjóð heimsins og að allar norrænu þjóðirnar séu meðal þeirra tíu hamingjusömustu. Þá drekki norrænt fólk líka mest kaffi, miðað við höfðatölu.

Þá birti sendiráðið mynd sem sýnir hve ofarlega Ísland er á mörgum alþjóðlegum listum.

Hér má sjá frekari tíst sendiráðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×