Viðskipti innlent

Telur Cleveland-búa ekki hafa áttað sig á kostum íslensku flugfélaganna

Birgir Olgeirsson skrifar
Flugfélögin hafa bæði hætt flugi til Cleveland en Icelandair stefnir á því að byrja aftur með áætlunarferðir þaðan næsta sumar.
Flugfélögin hafa bæði hætt flugi til Cleveland en Icelandair stefnir á því að byrja aftur með áætlunarferðir þaðan næsta sumar. Vísir/Vilhelm
„Ég held að Cleveland-búar hafi ekki áttað sig á því að þetta væri önnur leið til Evrópu. Ég held að þeir verði meðvitaðir um það ef Icelandair verður áfram hér,“ segir framkvæmdastjóri viðskiptaráðs Cleveland-borgar í Bandaríkjunum þar sem hann tjáir sig um áætlunarferðir íslensku flugfélaganna WOW og Icelandair.

Flugfélögin íslensku voru með reglulegar áætlunarferðir frá Hopkins-flugvellinum í Cleveland en WOW Air tilkynnti nýverið að flugfélagið hefði ákveðið að hætta flugi þaðan til Íslands. Icelandair ætlar að gera hlé á áætlunarferðunum yfir vetrartímann en byrja aftur í sumar.

Þegar WOW Air og Icelandair hófu flug frá Hopkins voru áætlunarferðirnar til Íslands meðal annars kynntar sem ódýr leið fyrir Cleveland-búa til að komast til Evrópu.

Joe Roman, framkvæmdastjóri Greater Cleveland Partnership, segir við News 5 í Cleveland að þegar bæði íslensku flugfélögin voru farin að fljúga frá Hopkins nánast á sama tíma dags, var ljóst að annað hvort þeirra myndi hverfa frá.

Líkt og áður segir ætlar Icelandair að hefja aftur áætlunarferðir frá Hopkins-flugvelli til Íslands næsta sumar en Roman hvetur íbúa Cleveland til að nýta sér þjónustu Icelandair. Ekki aðeins til að heimsækja Ísland heldur til að komast til Evrópu og aðra hluti heimsins á ódýran hátt.

„Ég held að ekki nógu margir hafi áttað sig á því að þetta verður ekki bara góð leið til að komast til Íslands yfir sumarið, heldur einnig mjög ódýr leið til Evrópu, Tel Aviv og annarra áfangastaða.“


Tengdar fréttir

Skúli: Mesti vöxturinn verður í flugi frá Indlandi og Asíu

Wow Air hefur ákveðið að hætta að fljúga til þriggja áfangastaða í miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Skúli Mogensen segir að Wow Air sé að leita að áfangastöðum með betri sætanýtingu allan ársins hring. Hann segist reikna með að mesti vöxturinn hjá félaginu á næstu árum verði í flugi frá Indlandi og Asíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×